132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:43]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þýðir kannski lítið að ræða þessi mál við hv. þm. Pétur Blöndal ef hann tekur ekki þau svör gild sem hann hefur þegar fengið úr ræðustól í dag. Hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, fór vel yfir málið áðan og hvernig svör heilbrigðisráðherra og upplýsingar sem hann gaf í umræðunni í fyrradag væru einfaldlega villandi.

Það kann vel að vera, ég skal ekki deila við hv. þm. Pétur Blöndal um það úr ræðustól vegna þess að við höfum ekki þau gögn undir höndum, að lífeyrir hafi hækkað meira en launataxtar. En launaþróunin í landinu hefur verið sú að kaupmáttaraukningin hefur verið yfir 50% eftir því sem hæstv. forsætisráðherra sagði. En kaupmáttaraukning lífeyrisþega hefur alls ekki haldið í við það. Það er auðvitað kaupmáttaraukningin sem við hljótum að horfa til í þessu sambandi. Það er það sem launavísitalan mælir en ekki bara launataxtar.

Ég þakka þingmanninum fyrir að gefa mér tækifæri til að koma í ræðustól aftur vegna þess að ég ætlaði, hæstv. forseti, að nefna það sem eldri borgarar sögðu um þetta efni árið 1995. Þá beindu þeir m.a. orðum sínum til háttvirtra alþingismanna og sögðu, með leyfi forseta:

„Nú er mál að linni. Þótt aldraðir liggi vel við höggi erum við ekki dauð úr öllum æðum þó að aldurinn færist yfir okkur. Það er a.m.k. ekki búið að afnema kosningarrétt okkar enn þá við ákveðin aldursmörk.“