132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:58]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um að hv. þm. Ögmundur Jónasson þekki lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna betur en ég þótt ég hafi greitt í það á uppvaxtarárum mínum.

Það sem ég var einfaldlega að tala um, virðulegi forseti, var dæmi úr hinum almennu lífeyrissjóðum sem verkamaðurinn var í, borgaði í og féll frá, þar sem makalífeyrir er ekki greiddur. Vegna þess að lífeyrissjóðurinn átti samkvæmt útreikningi ekki fyrir skuldbindingum sínum þurfti stjórn sjóðsins að breyta reglunum sem varð til þess að makalífeyrir einstaklings sem hefði fallið frá í gær hefði fengist eftir hann um ókomin ár en eftirlifandi maki þess sem félli frá í dag hefði ekki fengið neinar greiðslur. Þetta er svona. Ég er að gera þessa athugasemd og benda á það óréttlæti sem er í lífeyrissjóðakerfinu í landinu. Ég er ekkert að tala um spilltan opinberan lífeyrissjóð. (ÖJ: … í honum.) Ég er að tala um það hver mismunurinn er milli þess fólks sem vinnur hjá hinu opinbera, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, og verkafólks sem borgar í þá sjóði sem þar voru. Þessi lífeyrissjóður sem ég geri að umtalsefni var sem sagt þannig að útreikningar voru um að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og þá er farið í þessar breytingar.

Það er þess vegna sem ég segi, virðulegi forseti, að það megi segja með dálitlum gálgahúmor að viðkomandi einstaklingur sem ég tók dæmi af hafi dáið of seint. Ég er bara ekki sammála svoleiðis tryggingakerfi.