132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:12]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Að þessari tillögu stendur allur þingflokkur Samfylkingarinnar. Þetta er fyrsta málið sem við flytjum á þessu þingi eins og fram hefur komið og sýnir kannski forgangsröðunina sem er hjá okkur og er gaman að bera hana saman við þá forgangsröðun sem við höfum séð hjá hæstv. ríkisstjórn.

Tillagan gengur út á að í samráði við samtök aldraðra og öryrkja verði ríkisstjórninni falið að beita sér fyrir því að komið verði á afkomutryggingu, skoðuð verði þátttaka almannatrygginga og lífeyrissjóða í afkomutryggingunni og í greinargerð er gert ráð fyrir því að ríkisvaldið, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins, bæði frá launþegum, atvinnurekendum svo og lífeyrissjóðum, komi að málinu og setjist niður yfir þetta brýna mál og finni lausn sem tryggir öldruðum afkomutrygginu þannig að enginn þurfi í raun að una því eins og fram hefur komið áður að eiga ekki fyrir nauðþurftum.

Við heyrðum það í upphafi þings og höfum reyndar heyrt það oft áður að á Íslandi ríki góðæri og rétt er það að tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið meiri en síðustu missiri en það er svolítið í mótsögn við þá glansmynd sem upp er dregin af stjórnarherrunum þegar við horfum á að kjör stórra hópa í þjóðfélaginu hafa rýrnað á sama tíma. Samtök aldraðra hafa t.d. lengi bent á að kjör þeirra hafi rýrnað á þessum góðæristíma. Samtökin hafa lagt talsvert mikið á sig til að kynna þetta mál fyrir öllum sem viljað hafa hlusta á þau, almenningi, stjórnmálaflokkum og fjölmiðlum, og mér virðist sem Samtökum aldraðra gangi nokkuð vel núna að koma málstað sínum á framfæri alls staðar nema hjá hæstv. ríkisstjórn. Það virðist ekki vera að þær staðreyndir sem verið er að leggja á borðið nái eyrum hæstv. ráðherra og er alveg ótrúlegt að við skulum þurfa að standa í ræðustól á Alþingi og rífast fram og til baka um staðreyndir sem liggja á borðinu og þvæla þessa umræðu með tali um staðreyndir þegar við ættum í raun og veru að tala um það hvernig aldraðir hafa það og hvort einhver hópur aldraðra þurfi á því að halda að við tryggjum kjör þeirra betur en gert hefur verið.

Sú ríkisstjórn sem nú situr lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að nú yrði efnt til reglulegs samráðs við Samtök aldraðra og farið yfir það á hverjum tíma hver kjör þeirra væru og hvort þau þyrfti að einhverju leyti að bæta. Eins og fram hefur komið hér, og kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur lítið farið fyrir þessu loforði eftir kosningar. Það er fyrst núna, eftir að ákveðinn þrýstingur hefur byggst upp um að skoða þurfi kjör þeirra í hópi aldraðra sem verst hafa það, að ríkisstjórnin virðist að einhverju leyti ætla að fara að efna þetta loforð sitt frá því fyrir síðustu kosningar og hefja einhvers konar samráð eða samræður við Samtök aldraðra.

Tilgangurinn með þessari tillögu okkar í Samfylkingunni er einfaldlega sá að færa lífeyri aldraðra og öryrkja sem næst skilgreindu lágmarki sem þarf til framfærslu á hverjum tíma. Ég verð að segja alveg eins og er að það er hálfskammarlegt og reyndar undarlegt að þurfa að standa hér og rífast um hvort lífeyrisþegar eigi að eiga fyrir nauðþurftum eða ekki. Ef ákveðinn hópur lífeyrisþega á ekki fyrir nauðþurftum, og hægt er að sýna fram á það með fullgildum rökum, eru þá ekki allir sammála um að við þurfum að gera eitthvað í því? Eru þá ekki allir sammála því að við þurfum að taka höndum saman og koma í veg fyrir að hópur aldraðra eða öryrkja eigi ekki fyrir lágmarksframfærslu? Ég hélt við þyrftum ekki að standa hér og rífast um það hvort við ættum að grípa til einhverra aðgerða eða ekki en svo virðist vera. Þegar maður heyrir andsvör eins og hjá hv. þm. Pétri Blöndal veltir maður því fyrir sér hvernig í ósköpunum stendur á því að til eru hv. þingmenn sem virðast ekki skilja einfalda hluti eins og það að nauðsynlegt sé að bregðast við ef einhver hópur í þjóðfélaginu líður skort eða býr við neyð.

Það segir kannski svolítið um forgangsröð stjórnmálaflokka hvernig umræður eru hér á Alþingi og hvernig þátttaka er í þeim umræðum. Það virðist vera eins og hv. þm. Pétur Blöndal sé nánast eini stjórnarliðinn sem hefur áhuga á því að ræða þetta við okkur flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu. Hann kemur hér upp að mér virðist aðallega til að lýsa þeirri skoðun sinni að Samtök aldraðra fari með fleipur, að Samtök aldraðra segi ósatt. Ef maður hlustar á málflutning hv. þingmanns gæti maður helst haldið að þetta væri hópur einhverra óþokka að leyfa sér að fara með staðreyndir með þessum hætti.

Við hljótum að þurfa að álykta sem svo að þetta sé rödd Sjálfstæðisflokksins í umræðunum. Hér kom hv. nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Gunnar Örlygsson, og lýsti því yfir að í Sjálfstæðisflokknum væri stór hópur sem hefði áhuga á kjörum aldraðra, stór hópur sem væri að skoða þau mál. En þegar einungis einn hv. þingmaður úr röðum sjálfstæðismanna kemur upp í andsvör og situr við umræðuna þá hlýtur hann að vera talsmaður þessa flokks og maður veltir þá fyrir sér: Er hann talsmaður þessa hóps sem hv. þm. Gunnar Örlygsson var að minnast á?

Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr landsfundi þeirra sjálfstæðismanna sem hefjast á í dag. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þær skoðanir sem við höfum heyrt úr pontunni hjá hv. þm. Pétri Blöndal í þessari umræðu séu skoðanir sem endurspegla skoðanir meiri hluta þeirra sem mæta á landsfundinn.

Það er ekki bara það að kjörin hjá öldruðum hafi setið eftir ef við miðum við launaþróun í landinu. Það gæti nefnilega verið að skattastefna þessarar ríkisstjórnar — en hv. þm. Pétur Blöndal sagði í útvarpinu að hann hefði aldrei verið glaðari í pólitík vegna þess að svo vel hefði tekist til við að lækka skatta — sé partur af rýrnandi kjörum aldraðra. Persónuafslátturinn hefur setið eftir þannig að nú greiða aldraðir skatta af launum eða bótum sem þeir greiddu ekki skatta af áður. Ég held að við hljótum að geta tekið höndum saman á þingi og farið yfir þetta mál. Ef það er hópur úti í þjóðfélaginu, aldraðir og öryrkjar, sem býr við skort hljótum við í þessu allsnægtaþjóðfélagi að geta tekið höndum saman og lagfært hlutina á þann veg að svo verði ekki.