132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að ég hafi sagt að Samtök aldraðra segi ósatt. Það sagði ég aldrei. Ég sagðist hins vegar efast um að þeir mættu nota lægstu laun til viðmiðunar þegar þeir reikna út hækkun á lífeyri. Þeir segja alltaf að lífeyrir frá Tryggingastofnun hafi lækkað miðað við lægstu laun. Það er ekkert skrýtið, frú forseti, vegna þess að lægstu launin voru hækkuð umfram allt annað. Þau voru skammarlega lág. En það átti ekki að nota þau neins staðar til viðmiðunar. Það voru svardagar þeirra sem stóðu að samkomulaginu 1995. Þess vegna finnst mér ekki heiðarlegt af Samtökum aldraðra að nota það sem viðmiðun. Þeir eiga að miða við launaþróunina almennt og aftur leyfir hv. þingmaður sér, þó að í svari frá hæstv. heilbrigðisráðherra til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur komi fram að lífeyrir frá Tryggingastofnun hafi hækkað meira en launaþróun í landinu, að halda því fram enn einu sinni að svo sé ekki. Þetta kemur fram í svari frá hæstv. heilbrigðisráðherra.

Þetta er dálítið dapurleg umræða og sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á því að bæta kjör aldraðra, sem ég hef. Þá er það dapurlegt þegar menn nota bæði rangar viðmiðanir og horfa fram hjá því sem kemur fram í svörum frá ráðherra miðað við launaþróun sem Hagstofa Íslands reiknar út almennt. Svo halda menn fram allt öðru en stendur í þingskjölum. Hvers lags umræða er þetta eiginlega?