132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki skrifað borgarstjórn Reykjavíkur sérstaklega bréf um málið. Ég fylgist hins vegar með almennum fréttum. Af þeim hef ég fengið upplýsingar um að lækkanir og afsláttur á fasteignagjöldum til þessa hóps eru í hæsta kanti miðað við það sem gerist hér á landi. Ég tel að borgarstjórn Reykjavíkur standi sig ákaflega vel í því efni eins og mörgum öðrum.

Að því er varðar hækkun fasteignaverðs þá er alveg rétt hjá þingmanninum að hér er farin af stað svipuð þróun og maður hefur séð erlendis. Hvergi erlendis hefur þó orðið jafnrosaleg sprenging og hérna. Þar hefur þróunin verið hæg og sígandi. Hér má segja að umskiptin hafi orðið á einu ári. Af hverju? Eins og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa bent á þá var það stjórnvaldsaðgerð sem hleypti henni af stað. Íbúðalánasjóður, sem er eins konar ríkisbanki, sturtaði gríðarlegu fjármagni inn á markaðinn. Hann fór í samkeppni við bankana sem urðu að svara henni. Skyndilega fór af stað bylgja sem leiddi til þess að að sjálfsögðu hækkaði fasteignaverð, eins og gerist jafnan þegar menn hafa skyndilega aðgang að miklu og ódýru lánsfé til húsnæðiskaupa. Þetta er ástæðan.

Þess vegna, frú forseti, er að mínu viti fyrst og fremst að leita til stjórnvalda um aðalorsakir fyrir því að bylgjan fór af stað og hvers vegna þróunin hér varð hraðari, örari og óhamdari en annars staðar. Það er svo aftur orsök þess sem hv. þingmaður er að kvarta undan, að fasteignaverðið, og hækkanir á gjöldum sem af því stafa, hafa leitt til þess að það eina sem segja má að hafi verið kjarabót til aldraðra og öryrkja sem áttu einhverjar eignir, þ.e. eignarskattslækkunin, er að engu orðin. Það er allt afrek ríkisstjórnarinnar.