132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[13:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að lesa ljóðabókina Borg og sund eftir Sigfús Daðason. Þar segir í upphafi eins ljóðs: „Orð eru dýr.“ Það er nákvæmlega það sem hv. þingmaður er að upplifa, orð eru dýr. Menn eiga að tala gætilega. Ef menn tala ógætilega og telja að þeir hafi meitt einhvern þá eiga þeir að biðjast afsökunar. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður talaði þannig um öryrkja á sínum tíma, eins og frægt varð, að það var eins og hann væri að dæma heilan hóp. Hann hefði á þeim tímapunkti þegar sú umræða kom fram einfaldlega átt að biðjast afsökunar.

En orðræða hans er öll með sama blæ þegar þessi hópur er annars vegar. Jafnvel þó að hann telji að aldraðir hagi málflutningi sínum þannig að honum finnst hann ekki réttur þá hefur hann ekkert leyfi til þess að koma hingað og segja að það sé ekki heiðarlegt. Hvað felst í því að halda því fram að einhver sé ekki með heiðarlegan málflutning? Jú, í því felst að hann sé vísvitandi að reyna að beita einhvers konar lævi til þess að blekkja. Þess vegna eiga menn ekki að nota svona orð.

Þess vegna er það svo: „Þetta sem helst nú varast vann / varð þó að koma yfir hann.“ Það viðmót sem hv. þingmaður lætur uppi gagnvart þessum hópi í umræðu er fullkomlega leyfilegt að beita hann sjálfan. Þegar hv. þingmaður kemur hérna og dansar alveg á jaðri þess sem er leyfilegt þá verður hann einfaldlega að selja sig undir sömu meðferð. Það er þess vegna sem menn taka harkalega á hv. þingmanni Pétri H. Blöndal í þessari umræðu. Hann talar ógætilega um hóp sem ekki er alveg í færum með að verja sig, a.m.k. ekki í þessum sal.