132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:52]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni yfir að málshefjandi skuli hafa sett upp bindi áður en hann hefur umræður um Háskólann á Akureyri.

Ég tel auðvitað gott og þarft að taka upp slíka umræðu því að Háskólinn á Akureyri hefur sýnt það þann tíma sem hann hefur starfað að hann hefur orðið til ómetanlegs gagns og styrktar, ekki aðeins á Eyjafjarðarsvæðinu heldur víðs vegar um landið. Það hefur komið í ljós að þeir nemendur sem þangað hafa sótt úr hinum dreifðu byggðum eru líklegri til þess að snúa aftur til sinna heimahaga en þeir nemendur sem suður sækja.

Eins og fram kom í ágætri ræðu hæstv. menntamálaráðherra hefur nemendum fjölgað á síðustu fimm árum um helming. Fjöldi þeirra hefur tvöfaldast. Ég vil einnig vekja athygli á því að rannsóknarstarfsemi við Háskólann á Akureyri er orðin miklu meiri en nokkur þorði að láta sig dreyma um á þeim árum þegar við vorum að vinna að stofnun Háskólans á Akureyri. Það var einmitt áhyggjuefni og raunar árásarefni háskólans hér fyrir sunnan, ýmissa prófessora sem þar voru, að slíkri rannsóknarstarfsemi yrði ekki hægt að koma upp fyrir norðan. Háskólinn hefur því sannað sig að þessu leyti, bæði með því að veita nemendum sínum gott traust og eins með því að taka virkan þátt í rannsókn og vísindastarfsemi í landinu. Ég sé það fyrir mér í framtíðinni að háskólinn muni beita kröftum sínum í vaxandi mæli að náttúrurannsóknum, auðlindadeildin muni styrkjast. Þá horfi ég sérstaklega til þjóðgarðs sem á að stofna norðan Vatnajökuls og þeirrar starfsemi sem nú fer fram í Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn. Ég held þess vegna að við eigum að vera bjartsýn og metnaðarfull fyrir Háskólann á Akureyri og vera óhrædd að fela honum ný verkefni.