132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:55]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Fjölgun háskóla á Íslandi er fagnaðarefni og nauðsynleg. Þrátt fyrir það eigum við enn langt í land með að veita landsmönnum viðunandi aðstöðu til menntunar enda stöndum við samanburðarlöndum okkar langt að baki varðandi menntun. Ísland er í 17. sæti í samanburði OECD í framlögum til háskólastigsins og þótt fyrirhugað sé að bæta í á komandi ári er enginn efi í mínum huga að ekki er nóg að gert.

Frú forseti. Ég er ekki viss um að fólk almennt geri sér grein fyrir þeirri byltingu sem íslenskir háskólar hafa hrint af stað með fjarkennslu. Kennaraháskóli Íslands reið á vaðið en Háskólinn á Akureyri fylgdi í kjölfarið og veitir fjölmörgum íbúum dreifbýlisins tækifæri til náms í góðri samvinnu við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar. Það er ómetanlegt bæði fyrir einstaklingana og samfélagið. Ríkisvaldið hefur aldrei metið þetta mikla og dýrmæta framlag Háskólans á Akureyri til menntunar þess hluta landsmanna sem einmitt mesta hafa þörfina. Ef ekki væri fyrir aðkomu sveitarfélaganna er nær öruggt að háskólinn hefði neyðst til að leggja upp laupana í þessu efni en sveitarfélög hafa staðið straum af kostnaði við fjarkennsluna utan Reykjavíkur og Akureyrar. Mér er kunnugt um að sá kostnaður nam um 4 milljónum á Vesturlandi á síðasta ári og mikil ósanngirni að honum skuli velt yfir á veikburða sveitarfélög sem auðvitað eiga mikið undir því að íbúarnir hafi tækifæri til að mennta sig á heimaslóð.

Ég á eftir að sjá að tekið verði tillit til þess í rekstrarframlagi til Háskólans á Akureyri að búið er að stofnsetja háskólasetur á Vestfjörðum og annað er í undirbúningi á Austfjörðum sem eiga að fá kennslu m.a. frá Háskólanum á Akureyri. Ég spái því að eins og vanalega verði sett á flugeldasýning í upphafi en síðan sitji þeir aðilar sem málin snertir dags daglega uppi með útbrunnin prikin og allt of lítið fjármagn.