132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:59]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra fyrir umræðurnar og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þeim. Ég er afar ánægður með þann samhljóm sem málið hefur fengið og vildi óska þess að það kæmi fram á ákveðnari hátt með auknum framlögum til Háskólans á Akureyri. Það er gott að heyra að reiknilíkanið er í endurskoðun og vonandi verður það lagfært verulega. En ég vil benda á að vitað var að hið einkarekna rannsóknarhús yrði mun dýrara fyrir háskólann en það húsnæði sem fyrir var. Ég fagna því þeim upplýsingum sem komu frá hv. þm. og fulltrúa í fjárlaganefnd, Einari Má Sigurðarsyni, að óskað hafi verið eftir upplýsingum um leiguverð í húsnæðinu.

Ég vil benda hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur á að hallarekstur er því miður til staðar á háskólanum enn þá. Það var uppsafnaður vandi sem var að hluta til lagfærður í haust.

Oft er talað um Eyjafjarðarsvæðið sem eitt helsta vaxtarsvæði utan höfuðborgarinnar og með tilkomu Háskólans á Akureyri var snúið við þeirri hnignun sem átti sér stað á svæðinu. Nú starfa nokkrar stofnanir í tengslum við Háskólann á Akureyri eins og Byggðarannsóknarstofnun, skólaþróunarsvið, ferðamálasetur, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Með tilkomu háskólans hafa verið auknir möguleikar á því að flutningur stofnana út á land ætti að ganga greiðar jafnframt því sem nýir starfsmöguleikar verða fyrir hendi og allt það góða fólk sem útskrifast frá skólanum eflir atvinnulífið og stofnar fyrirtæki sem geta vaxið og dafnað.

Framtíð Háskólans á Akureyri er björt fái hann þann stuðning sem honum ber. Auka þarf námsframboð og fjölga deildum þannig að skólinn geti þróast eðlilega. Viljinn er fyrir hendi en það skortir fjármagn. Ef til vill þarf áræði og kjark til að taka af skarið en málin eru fyrst og fremst í höndum hæstv. menntamálaráðherra sem ég vona að bregðist ekki í þessu máli.