132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:20]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hvers vegna kjósum við þingmenn Samfylkingarinnar að flytja sem eitt okkar helsta mál á þessu þingi þá þingsályktun sem hér liggur fyrir um afkomutryggingu? Jú, það er vegna þess að við teljum að eitt brýnasta verkefnið í íslensku samfélagi í dag sé að ríða þéttar það öryggisnet sem að við höfum í velferðarsamfélaginu traust okkar á að leggja og teljum algerlega einboðið að það þurfi að efla og styrkja frá því sem nú er. Ég verð að segja að þegar þessi tilgangur er hafður í huga að þá undrar það mann að hv. þingmaður Gunnar Örlygsson og hv. þingmaður Pétur Blöndal, þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem helst hafa hér tekið þátt í umræðunni af hálfu Sjálfstæðisflokksins, skuli koma endurtekið í ræðustólinn til að fjargviðrast yfir málflutningi þessum og finna honum ýmislegt til foráttu. Ég hélt satt að segja að það hlyti að vera hverjum manni augljóst að þessa er ekki aðeins þörf, þ.e. að styrkja og bæta afkomu lífeyrisþega í landinu, heldur er það orðin alger nauðsyn vegna þess að í okkar góða samfélagi er að verða slík gliðnun á milli tekjuhópa að það ógnar samstöðunni og stöðugleikanum í samfélaginu.

Við Íslendingar höfum búið að þeirri gæfu að hér hefur misskipting tekna til langs tíma verið fremur lítil miðað við það sem að tíðkast hefur í kringum okkur og við höfum látið okkur varða hvert um annað og keppst við að hafa hér eitt velferðarsamfélag. En sú öra þróun til misskiptingar sem orðið hefur í stjórnartíð Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, hlýtur að vekja okkur öllum nokkurn ugg. Það sýnir sig að á síðustu tíu árum að hefur misskiptingin í landinu orðið meiri, en ekki aðeins meiri heldur hefur misskiptingin verið að aukast hraðar en í öllum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta hefur núna gengið þannig fram síðan 1995. Og það sýnir sig að ef það heldur áfram að ganga með þessum hraða að auka misskiptinguna á milli hinna efnuðu og hinna efnaminni þá munum við að öðrum tíu árum liðnum vera sú þjóð Efnahags- og framfarastofnunarinnar þar sem að misskipting er mest. Þá hefðum við á einum aldarfjórðungi, aðeins á liðlega 20 árum, farið úr því að vera það samfélag sem státaði af hvað mestum jöfnuði og yfir í það að vera það samfélag sem státar af hvað mestum ójöfnuði. Það væri sannarlega mikið ógæfuspor fyrir þjóðina alla, ekki aðeins hina efnaminnstu, því að rannsóknir fræðimanna sýna að jöfnuður hefur áhrif á hagvöxt. Jöfnuður skapar hagvöxt. Jöfnuður leiðir þannig til aukinnar og bættrar afkomu fyrir þjóðarbúið allt. Norðurlandaþjóðirnar eru auðvitað í heiminum kristaltært dæmi um þetta. Óvíða eru tekjur og velmegun meiri. Óvíða er jöfnuður meiri. Það helst í hendur, hæstv. forseti, og þess vegna er það hagsmunamál okkar allra að halda í þann jöfnuð sem við hér höfum notið um áratuga skeið.

En hvernig hefur þetta gerst? Þetta hefur ekki gerst í einu vetfangi, nei, en þetta hefur þó aðeins gerst á tíu árum og það hefur einkum gerst með tvennum hætti. Það hefur annars vegar gerst þannig að bætur lífeyrisþega hafa aðeins hækkað í samræmi við verðlag á neysluvörum, eins og á yfirstandandi ári, meðan að laun í landinu hafa hins vegar hækkað um 2% meira. Þannig er það nú einfaldlega í iðnsamfélögum okkar daga að kaupmáttur eykst að jafnaði ár frá ári um kannski 2% og ef lífeyrisþegar njóta ekki þeirrar kaupmáttaraukningar þá kann mönnum ekki að finnast muna mikið um 2% á einu ári. En þegar það safnast upp yfir tíu ára tímabil þá munar auðvitað verulega um það. Það er þannig t.d. að á árunum 1995–1999 jókst kaupmáttur lífeyrisþega þrisvar sinnum minna en almenns launafólks. Og 2% á ári í tíu ár eru 20% eða heill fimmtungur af því sem lítið er, virðulegur forseti, af því sem lítið er.

Og hver er hinn þátturinn sem að hefur verið að skerða kjör lífeyrisþeganna? Það er þróunin í skattamálunum. Ég heyrði hv. þingmann Pétur H. Blöndal í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 í morgun því sem næst dansa upp á borðum af kæti yfir því hversu mjög þessi stjórn hefði frá árinu 1995 lækkað skattana í landinu. Við þessi orð könnuðust ekki þeir 30 þúsund lífeyrisþegar sem eru með undir 110.000 kr. á mánuði. Þeir könnuðust ekkert við þann veruleika sem Pétur H. Blöndal alþingismaður var að lýsa vegna þess að hv. alþingismaður Pétur H. Blöndal hefur ekki verið að lækka skatta þessa fólks. Ellilífeyrisþegar með 110.000 kr. í lífeyri á mánuði eru nú að borga 14% af tekjum sínum. Það var fyrir tíu árum síðan rétt um 3% af sambærilegum bótum og þannig hefur skattbyrði þeirra aukist um heil mánaðarlaun á ári. Og þegar þetta leggst saman, annars vegar að lífeyrisþegarnir fylgja ekki kaupmáttaraukningu okkar hinna og hitt að skattbyrði þeirra þyngist meðan að skattbyrði okkar hátekjufólksins í þessum sal léttist, þá eykst misskiptingin. Svo einfalt er það. Eins og ég gat um áðan, virðulegur forseti, þá eykst hún svo hratt að hún eykst að líkindum hraðar en í nokkru öðru landi OECD og haldi hún áfram að vaxa með þeim hraða sem hún hefur verið að gera er hætta á því að að áratug liðnum verði misskipting hér meiri en í öðrum OECD ríkjum.

Það er full ástæða fyrir hv. alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, að taka þessa þróun mjög alvarlega. Það er eitthvert brýnasta verkefni okkar að berja í þessa bresti, að styrkja hér öryggisnetið í samfélaginu, að taka af myndarskap á málefnum lífeyrisþega, hvort sem það eru öryrkjar eða aldraðir, vegna þess að það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að standa vörð um jöfnuðinn í þessu samfélagi, þann hagvöxt sem að honum fylgir og varðveita þann stöðugleika sem hann skapar.