132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:53]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu kemur m.a. fram að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni, í samráði við samtök aldraðra og öryrkja, að beita sér fyrir því að komið verði á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega sem komi til framkvæmda í byrjun ársins 2007.

Okkur ætti öllum að vera orðið ljóst að í þjóðfélaginu búa allt of margir við og jafnvel undir fátæktarmörkum, þ.e. hafa ekki tekjur sem duga fyrir nauðþurftum. Aldraðir, öryrkjar, einstæðir foreldrar og þeir sem haldnir eru langvarandi veikindum eru þar stór hluti og búa ekki við það sem við mundum vilja kalla mannsæmandi tekjur. Það er ekki hægt að segja að þessir hópar hafi fengið hlut af hinu svokallaða góðæri.

Eins og hér hefur komið fram var árið 1996 afnumin tenging bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu. Það hefur valdið gífurlegri skerðingu á lífeyri aldraðra og öryrkja. Á síðustu árum hefur dregið í sundur með lífeyrisþegum og þeim sem hafa lægstu launin þrátt fyrir að ekki sé annað hægt að segja en að lægstu laun séu til háborinnar skammar. Grunnlífeyrir og full tekjutrygging væru um 12–13 þús. kr. hærri ef raungildi þeirra greiðslna væri hið sama á árinu 2005. Það má jafnframt benda á að stór hluti ellilífeyrisþega, um þriðjungur, er með um eða undir 110 þús. kr. í tekjur á mánuði.

Þingmenn meiri hlutans hafa í dag, líkt og oft áður, reynt að breiða yfir hve lágar tekjur ellilífeyrisþegar hafa en við skulum taka hér dæmi af launaseðli einhleyps ellilífeyrisþega sem ekki hefur atvinnutekjur. Hann fær í grunnlífeyri 21.993 kr., tekjutryggingu 43.113 kr., tekjutryggingarauka 21.258 kr. og heimilisuppbót 18.080 kr. Þetta gerir samtals 104.444 kr. á mánuði. Þegar tekjuskatturinn er tekinn af hefur viðkomandi einstaklingur ráðstöfunartekjur upp á rúmar 93 þús. kr.

Ef viðkomandi ellilífeyrisþega bjóðast atvinnutekjur, t.d. 50 þús. kr. á mánuði, eru refsingar í gildi. Þær hafa í för með sér lækkun á tekjutryggingu og lækkun á heimilisuppbót, tekjutryggingaraukinn fellur alveg niður en tekjuskatturinn hækkar að sjálfsögðu. Af þessum 50 þús. kr. skerðast því tekjurnar um 65%, þ.e. af 50 þús. kr. aukatekjum eru einungis 17.1180 kr. eftir. Ljóst er að þetta er ekki til þess fallið að hvetja menn til vinnu.

Staða flestra lífeyrissjóða er sem betur fer traust og því munu aukin lífeyrisréttindi bæta kjör eldri borgara á komandi árum. En hér ræðum við um nútímann. Tekjur þeirra munu batna í framtíðinni en ekki í dag og við því þarf að bregðast.

Á undanförnum missirum hafa þær litlu hækkanir sem runnið hafa til lífeyrisþega yfirleitt verið teknar af aftur með ýmiss konar aðferðum. Þar á meðal eru dæmi um að lífeyrisþegar hafi þurft að greiða sem svarar mánaðarlífeyrisgreiðslum fyrir lyf á ári. Húsnæðiskostnaður öryrkja og aldraðra hefur líka hækkað á síðustu árum. Styrkir til bifreiðakaupa öryrkja eru nú færri og að raungildi eru þeir lægri en árið 1995. Auk þessa hefur ríkisstjórnin afnumið hagstæð bifreiðakaupalán sem öryrkjum stóðu áður til boða.

Síðast en ekki síst er rétt að leggja áherslu á það sem áður hefur komið fram varðandi tillögu meiri hlutans um að bæta hag aldraðra um einhverjar krónur. En hvernig á að fara að því? Það á að afnema bensínstyrk fatlaðra, þ.e. þeirra sem nýta bíla til að komast til og frá vinnu eða í nám til að reyna að bæta hag sinn, til að verða sjálfbjarga. Þar á að ná í meira en 700 millj. kr. og hluta af því ætla menn að setja í lífeyrinn. Þrátt fyrir bullandi hagvöxt, góðæri og tekjuafgang virðist þetta vera eina leiðin sem ríkisstjórnin sér færa til að reyna að bæta hag aldraðra, að taka tekjur af fötluðum.

Með þingsályktunartillögunni leggja flutningsmenn, þ.e. Samfylkingin, áherslu á að eitt af forgangsverkefnunum í þjóðfélaginu á næstunni verði að bæta kjör tekjulágu hópanna, m.a. með því að styrkja almannatryggingakerfið og að þeir hópar fái eðlilegan og sanngjarnan hlut í auknum hagvexti og þjóðartekjum.

Ég minni í tilefni af þessu máli á þingsályktunartillögu sem margoft hefur komið fram frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, Sjálfstæðisflokki, um umboðsmann aldraðra. Þá tillögu hefur hann ásamt öðrum lagt fram oftar en einu sinni en einhverra hluta vegna virðist aldrei komast í gegn hjá samflokksmönnum hans. Ég velti því fyrir mér, miðað við ástandið hjá öldruðum í dag, hvort ekki sé kominn tími til að taka upp þá tillögu til að tryggja að aldraðir hafi sinn málsvara.