132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[15:00]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem við ræðum nú hefur vakið miklar umræður og ég veit að úti í samfélaginu er fylgst vel með því sem hér fer fram.

Þrátt fyrir að nokkrir þingmenn hafi komið í ræðustólinn, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og látið sem svo að þessi þingsályktunartillaga sé allsendis óþörf, þá hygg ég að allir viti í hjarta sínu að hér er um mjög þarft mál að ræða. Ég hygg að allir þekki til dæma sem sanna, svo ekki verður um villst, að hér er réttlætismál á ferðinni. Dæmin eru því miður ekki fáein heldur eru þau mörg og þau eru almenn.

Ég var á fundi fyrir stuttu þar sem aldraður maður tók til máls. Hann lýsti m.a. kjörum sínum og undir lokin klökknaði hann. Hann klökknaði þegar hann var að lýsa því að hann gæti ekki glatt sína nánustu. Hann gæti ekki glatt börnin sín og hann gæti ekki glatt barnabörnin sín.

Það er áhrifamikið að verða vitni að slíkri lýsingu. Ég vildi óska þess að sjálfstæðismenn, sem hafa verið að tala á móti þessari tillögu hér og gera gys að okkur, fengju að heyra svona lýsingar og legðu eyrun við. Ég vildi óska að þeir reyndu að læra eitthvað af því, því að það virðast þeir ekki gera. Þeir bregða hins vegar upp pótemkin-tjöldum.

Ég ætla, frú forseti, að fá að lesa aðeins upp úr tillögu að ályktun sem verður lögð fyrir 36. landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem er að hefjast núna á eftir í Laugardalshöllinni.

Þar segir svo, frú forseti, í ályktun um málefni eldri borgara, með leyfi:

„Landsfundur samþykkir að afnema skuli tekjutengingu við upphæð sem nemur óskertum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, það er grunnlífeyri, tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót, til þeirra sem náð hafa 67 ára aldri. Þessi upphæð taki árlegum breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Við fráfall eftirlaunaþega haldi eftirlifandi maki/sambýlismaður óskertum launum hins látna í 6 mánuði sem skerðist þá í áföngum og falli niður að 12 mánuðum liðnum.“

Ég hygg að við getum vel tekið undir að þetta sé réttlætismál og mér þykir gott að sjálfstæðismenn hafa komið auga á þessi ágætu atriði.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Landsfundur lýsir yfir ánægju með niðurstöður samráðshóps ríkistjórnarinnar og Landssambands eldri borgara og það formlega samráð sem þar var stofnað til með það fyrir augum að skilgreina brýn úrlausnarefni, m.a. í lífeyrismálum, hjúkrun og aðhlynningu. Fagnað er þeim framlögum sem ríkisstjórnin ákvað að veita til þessara verkefna.“

Gott mál. Aðeins neðar stendur, með leyfi frú forseta:

„Móta þarf heildstæða stefnu og tryggja framboð leiguhúsnæðis, dagvistunar- og hjúkrunarrýmis fyrir aldraða. Neyðarástand hefur skapast hjá mörgum öldruðum vegna skorts á leiguhúsnæði og vistunarrými á hjúkrunarheimilum. Þess vegna telur landsfundur brýnt að stórátak verði gert til úrbóta.“

Hver getur ekki tekið undir þetta? En ég vil nota tækifærið og benda á að sjálfstæðismenn hafa verið í ríkisstjórn a.m.k. — eru það ekki tíu ár, frú forseti? Ég held það bara. (Gripið fram í.) Síðan 1991. Það er mál til þess að þeir vakni, frú forseti. Skyldi það vera Framsóknarflokkurinn sem stendur í vegi fyrir því að þessi ágætu áhugamál þeirra sem semja ályktunina nái fram að ganga? Ég spyr. Eða skyldi það vera svo að þeir sem ráða ferðinni fyrir sjálfstæðismenn hér á Alþingi telji það brýnna að gera gys að málum sem lúta að bættum aðbúnaði aldraðra og fatlaðra hér á Íslandi árið 2005?

Það er okkur mikil áminning að heyra fréttirnar í útvarpinu í gærkvöldi, og hefur aftur verið minnst á í dag, um að misskipting á Íslandi sé að aukast og sé að verða sú mesta í heiminum. Við erum að fara fram úr Bandaríkjunum á næstu árum ef svo fer sem horfir. Ég ætla að minna á að þetta er allt gert undir leiðsögn Sjálfstæðisflokksins, og það er ekki von á öðru, frú forseti.

En mér mun þykja forvitnilegt og ég mun fylgjast vel með því, eins og örugglega margir fleiri í þessum sal og aldraðir og fatlaðir úti í samfélaginu, hvernig verður farið með þessa ályktun eða tillögu til ályktunar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Enn þá forvitnilegra verður að fylgjast með því hvort ríkisstjórnarflokkarnir, sem hafa öll völd í hendi sér og geta gert það sem þeir vilja til að bæta hag aldraðra og öryrkja, muni starfa í þeim anda sem lagt er til í tillögunni sem ég vitnaði í áðan.