132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:48]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er allt saman rétt að skuldsetning þjóðarbúsins út á við á undanförnum árum hefur verið mikil, ekki skuldsetning ríkissjóðs heldur skuldsetning einstaklinga og þá líka fyrirtækja. En við verðum að hafa í huga í því sambandi að fyrirtækin hafa verið að eignast mikið á móti. Íslensk fyrirtæki hafa verið að fjárfesta mjög mikið erlendis. Hér eru því ekki eingöngu skuldir heldur eignir á móti. Rétt er að hafa það í huga. Íslensk fyrirtæki hafa verið mjög huguð í uppbyggingarstefnu sinni. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að margir hafa á undanförnum árum efnast mjög mikið í íslensku samfélagi og þá ekki síst einstaklingar í viðskiptalífinu. Þar er um að ræða fjárhæðir sem eru raunverulega alveg nýjar og er nýtt í tilveru okkar.

En ég held að það sé samt rétt að hafa í huga að mikilvægt er að Íslendingar geti tekið þátt í alþjóðavæðingunni. Margir efnast í alþjóðavæðingunni og mikilvægt er að landar okkar séu þar þátttakendur. Mér hefur fundist það mjög mikilvægt að þeir aðilar hafa síðan verið að fjárfesta mikið á Íslandi og höfuðstöðvar þeirra fyrirtækja sem hafa verið að standa sig best á alþjóðavettvangi eru á Íslandi. Þetta er ekki t.d. í baltnesku löndunum. Þar eru höfuðstöðvarnar gjarnan í Helsinki eða Stokkhólmi, en hér á landi eru mjög öflug fyrirtæki sem hafa aðalstöðvar sínar á Íslandi og hafa að mörgu leyti drifið áfram þá miklu efnahagslegu uppbyggingu sem hefur átt sér stað.