132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:51]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Viðskiptahalli samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins og tölum sem nú liggja fyrir verður upp á 500 milljarða kr. samanlagt að núvirði á árunum 2003–2010. 500 milljarða kr. viðskiptahalli. Viðbótarskuldsetning þjóðarbúsins á þessu tímabili er ekkert smáræði og fyrir liggur að meira en helmingurinn af þessum viðskiptahalla er enn sem komið er ekki vegna varanlegrar fjárfestingar, er ekki vegna fjárfestinga í framleiðslutækjum eða uppbyggingu og fjárfestingu í atvinnulífinu heldur vegna innflutnings umfram útflutning.

Nettóskuldastaða þjóðarbúsins. Vissulega hafa myndast eignir í gegnum fyrirtækjakaup o.s.frv. erlendis en horfum þá á nettóskuldastöðuna. Hvernig hefur hún þróast? Því miður þannig að nettóskuldir, hreinar erlendar skuldir að frádregnum eignunum úti eru núna 135% af vergri landsframleiðslu, hærri tala en nokkru sinni fyrr. Hvert vafasama skuldasöfnunar- eða viðskiptahallametið á fætur öðru er að falla þessa dagana, bæði heimsmet og Íslandsmet. Það er veruleikinn því miður, frú forseti.