132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:52]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að viðskiptahallinn er mikill en uppbyggingin hér á landi er gríðarleg. Það er ekkert óeðlilegt við það að viðskiptahalli sé þegar farið er í mikla uppbyggingu og fjárfestingu. Ég vil biðja hv. þingmann að lesa áfram þær spár sem bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið eru með í sambandi við efnahagsþróun á Íslandi á næstu árum. Segja má að hagvöxturinn sé að nokkru leyti drifinn áfram núna vegna þessa mikla innflutnings og miklu fjárfestinga sem við erum að fara í en síðan er gert ráð fyrir að hagvöxturinn verði drifinn áfram af útflutningstekjum, þ.e. það sem við erum að fjárfesta í dag komi síðan fram í stórauknum útflutningi m.a. í áli. Ég vil einnig benda hv. þingmanni á að samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir stóraukinni fjármögnun til nýsköpunar á næstu árum.