132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:55]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er ekki rétt að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar þjóni fyrst og fremst hátekjufólki. Það liggur ljóst fyrir að eignarskattarnir koma best við þá sem eru skuldlitlir og það er einkum eldra fólkið í landinu og þetta sýna allir útreikningar.

Svo er eitt sem hv. þingmenn verða að hafa í huga í sambandi við skattamál og það er atvinnuþátttakan. Atvinnuþátttakan hér á landi er mjög mikil. Það kemur t.d. fram í nýlegum samanburði við Dani að ef atvinnuþátttaka í Danmörku væri álíka og á Íslandi, sérstaklega þeirra sem eldri eru en 65 ára, gætu þjóðartekjur Dana hækkað um 85 milljarða danskra kr. eða álíka mikið og þjóðartekjur okkar. Ljóst er að víða um Evrópu eru menn að leggja áherslu á að taka upp flata skattlagningu, eina skattprósentu með svipuðum hætti og við höfum gert. Ef menn líta til umræðunnar í Þýskalandi og Bretlandi og þess hvað þau ríki sem eru að ganga inn í Evrópusambandið eru að gera, t.d. baltnesku löndin, þá er þetta álitið að sé mjög ríkur þáttur í því að þjóðir haldi samkeppnishæfni sinni. Við Íslendingar erum mjög samkeppnishæfir í öllum samanburði við aðrar þjóðir. Ég tel að okkur hafi auðnast að byggja upp mjög gott skattkerfi sem bæði þjónar því sjónarmiði að tryggja mikla atvinnuþátttöku og einnig sjónarmiðum ríkisins, að ríkið fái nægilegar tekjur til að halda uppi velferðarkerfi okkar.