132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:59]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að það haldi áfram að ríkja sátt á vinnumarkaði og þeir kjarasamningar sem núna eru í landinu haldi gildi sínu fram til ársins 2008. Það er mikilvægt fyrir okkur öll. Það er mikilvægt fyrir verkalýðshreyfinguna, það er mikilvægt fyrir atvinnulífið, það er mikilvægt fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið í heild sinni.

Ég hef ekki heyrt aðila frá verkalýðshreyfingunni segja að skattalækkanir komi ekki fram hjá hinum venjulega manni. Ég hef hins vegar heyrt mismunandi sjónarmið þar á bæ eins og gengur og það eru mismunandi sjónarmið í þessu máli, bæði á Alþingi og meðal launþega. En ég tel hins vegar að mjög gott jafnvægi hafi tekist í þessum skattalækkunum og ég tel enga ástæðu til að breyta þeim ákvörðunum.