132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þingmenn hafa fylgst vel með landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar sýnist mér að allt stefni í það sem ég reyndar spáði fyrir um við 1. umr. fjárlaga, að meira yrði um þversagnir í málflutningi hv. þm. Helga Hjörvars. Hv. þingmaður talar bæði um að hann vilji fá aukið aðhald í fjárlögin og svo er hann að hvetja til útgjalda.

Ég ætla að vona að hann hafi lesið landsfundarályktunina nákvæmlega því að eins og þar stendur er þar áskorun til hæstv. heilbrigðisráðherra um að hann finni farveg hagræðingar í ráðuneytinu á annan hátt en í gegnum bensínstyrkinn svokallaða. Eins og fram kemur í 2. hefti fjárlagafrumvarpsins, bls. 362, er þar gerð grein fyrir því hvernig þessum málum er háttað, hvernig eigi að færa þessa fjármuni til og í hvaða tilgangi.

Það kom reyndar líka fram við 1. umr. fjárlaga, og það á hv. þm. Helgi Hjörvar að vita mætavel og muna því að hann er glöggur maður, að hæstv. heilbrigðisráðherra hafði boðað þá þegar fulltrúa öryrkja til fundar við sig til að ræða þetta mál. Þessi fundur hefur þegar farið fram og hæstv. heilbrigðisráðherra er að vinna í því að fara yfir þessi mál í ráðuneyti sínu. Eins og hv. þingmenn vita vinnum við samkvæmt svokölluðu rammafjárlagakerfi þar sem ráðherrar hafa nokkurt frjálsræði innan síns ramma um hvernig útgjöldum er raðað og eins um það hvernig þeir útfæra hagræðingarkröfur.

Eins og hv. þingmenn vita liggur svo auðvitað síðasta orðið hjá hv. Alþingi þegar fjárlög verða afgreidd.