132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í fjárlagaumræðu við 1. umr. fjárlaga er kerfisbreyting á bensínstyrk komin til vegna hagræðingarkröfu til ráðuneytisins. Breytingin var lögð til vegna þess að þetta var í upphafi styrkur sem var ætlaður hreyfihömluðum en hafði þróast út í það að vera nokkuð almennur styrkur. Ég gerði grein fyrir ástæðunum við fjárlagaumræðuna.

Þetta var einn af mörgum erfiðum kostum sem við stóðum frammi fyrir í hagræðingu. Menn skulu gera sér grein fyrir því, bæði innan þings og utan, að öll mál sem undir heilbrigðisráðuneytið heyra eru viðkvæm. Það er alveg sama hvar borið er niður. Við erum að höndla um málefni sjúklinga, við erum að höndla um málefni lífeyrisþega og það eru engir auðveldir kostir í niðurskurði eða hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Þess vegna var þetta einn af erfiðum kostum sem ég stóð frammi fyrir.

Eins og kom hins vegar fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan ákvað ég að leggja ekki fram frumvarp um málið fyrr en ég hefði átt fundi með forustu Öryrkjabandalagsins sem mótmælti þessari aðferð harðlega. Ég hef átt slíka fundi og hef verið að fara yfir þetta mál upp á nýtt. Ég hyggst ljúka þeirri yfirferð fyrir 2. umr. fjárlaga. Auðvitað mun ég líta á alla þætti málsins og ég verð, ef horfið verður frá þessu, að finna aðrar hagræðingarleiðir og færa þá til baka þær hækkanir á bótum sem voru áætlaðar í fjárlagafrumvarpinu.