132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:11]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra finni breiðu bökin hjá hreyfihömluðum lífeyrisþegum þegar kemur til hagræðingar í heilbrigðisráðuneytinu. Hann talar um að bensínstyrkurinn sé orðinn almennur styrkur: Það þarf hvorki meira né minna en vottorð um hreyfihömlun frá lækni til þess að fá þennan styrk, þær 8 þús. kr. á mánuði sem felast í þeim bensínstyrk sem hér er verið að ræða um að eigi að falla niður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Það er líka furðulegt að hlusta á nýjan fjármálaráðherra afneita fjárlagafrumvarpinu eins og hann gerði í umræðunni.

En ég vil fá það fram í þessari umræðu: Eru ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins marklaus plögg eins og við höfum talað um eða er eitthvað að marka þær? Ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að styðja það að bensínstyrkur til hreyfihamlaðra verði felldur niður þegar það mál kemur til afgreiðslu eða ætla þeir að fara eftir landsfundarsamþykktum sínum? Þá kemur í ljós hvort það er eitthvað að marka þessar ályktanir. Hingað til hefur ekkert verið að marka þær því að þær hafa ekki borist hingað inn í þingið þó svo að menn hafi samþykkt einhverjar fagrar ályktanir eins og þarna eru. Ég vil fá það fram í þessari umræðu og finnst full ástæða til þess, virðulegi forseti, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins upplýsi það hér hvort þeir ætli að styðja það að bensínstyrkurinn verði felldur niður og að um leið missi allir hreyfihamlaðir þessar 8 þús. kr. og þurfi að fara að borga bifreiðagjöldin sem hafa fylgt þessum styrk og fallið niður hjá þeim sem hafa haft bensínstyrkinn. Styðji þeir þetta ekki er ekki stuðningur í þinginu fyrir afnámi bensínstyrks.

Það verður að upplýsast í umræðunni. Annars eru þessar ályktanir Sjálfstæðisflokksins á landsfundum tómt píp.