132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:16]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið er ríkisstjórnarinnar allrar, fjárlagafrumvarpið er samþykkt úr ríkisstjórn og það er ríkisstjórnin öll sem stendur að fjárlagafrumvarpinu.

Niðurfelling bensínstyrksins var að hluta viðbrögð hæstv. heilbrigðisráðherra við sparnaðarkröfu fjármálaráðherra. Miðað við verðlagsforsendur fjárlaga hefði bensínstyrkurinn orðið 750 milljónir á næsta ári, 500 milljónir til aldraðra og 220 milljónir til öryrkja. Ætlun heilbrigðisráðuneytisins var að í stað bensínstyrksins yrði stærsti hluti þeirrar fjárhæðar eða 400 millj. kr. notaður til að hækka tekjutryggingaraukann um a.m.k. 20%, en sá bótaflokkur, tekjutryggingarauki, er ætlaður þeim sem hafa engar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga sér til framfærslu og það eru þeir lífeyrisþegar sem við flestöll erum sammála um að eru verst settir. Ætlunin var að flytja fjármagn til þeirra lífeyrisþega sem verst eru settir, verja jafnframt 100 milljónum til starfsendurhæfingar og loks að mæta sparnaðarkröfu fjármálaráðherra.

Frú forseti. Ef það er vilji til að falla frá sparnaðarkröfu á heilbrigðisráðuneytið og vilji er til að halda bensínstyrknum inni er það fagnaðarefni í sjálfu sér en þá verður tekjutryggingaraukinn ekki hækkaður um 20% (Gripið fram í.) til þeirra sem eiga rétt á honum, og það eru þeir lífeyrisþegar sem verst eru settir, nema til komi þá viðbótarfjárveiting á fjárlögum til þeirra hluta.