132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:17]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að fylgjast með ýmsu sem gerðist hjá sjálfstæðismönnum á þessum fundi, þar á meðal þeirri fyrirspurn sem kom til hæstv. fjármálaráðherra frá Þorvaldi Ingvarssyni, yfirlækni á Akureyri. En mér þótti miklu merkilegra svar hæstv. ráðherra þar sem hann lýsti því hvernig þetta kom til, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, að þetta hafi sem sagt komið sem tillaga frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og þar á bæ hefði mönnum þótt þetta skynsamlegt, eins hæstv. fjármálaráðherra sagði, að þar á bæ hefði mönnum þótt þetta skynsamleg ákvörðun.

Mér brá mjög við þetta svar og þótti það — ég veit ekki hvaða orð ég má nota, virðulegi forseti, í ræðustól Alþingis, mér fannst þetta mjög smekklaust af hæstv. fjármálaráðherra að láta þetta koma svona fram, fyrir utan að það hlýtur auðvitað að vera rýtingsstunga í samráðherra, hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þó svo að ég hafi ekki í sjálfu sér áhyggjur af því þó að þeir fari að skylmast.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem ég veit að hér á eftir að koma: Er hæstv. fjármálaráðherra e.t.v. sammála því sem hann taldi að hefði komið úr heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, þ.e. að þetta væri skynsamleg ráðstöfun að ráðast á þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, aldraða og öryrkja, og taka þessa bensínpeninga af þeim? Er þetta skynsamlegt, hæstv. fjármálaráðherra?