132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þá tökum við upp þráðinn þar sem frá var horfið síðast þegar þing kom saman við að ræða þingmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fór ítarlega yfir málið í síðustu viku. Ég mun því aðeins stikla á stóru en minni á að í upphafi tillögunnar eru skilgreind þau markmið sem við viljum ná.

„a. verðbólga náist sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans,

b. stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur,

c. sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum og þróun þjóðlífsins almennt,

d. tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði,

e. bæta skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífinu og til uppbyggingar sprotafyrirtækja,

f. draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun,

g. viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna,

h. jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt.“

Þetta eru þau markmið sem við skilgreinum og viljum ná. Síðan eru ítarlegar tillögur um hvernig eigi að ná þeim markmiðum fram. Ég ætla að nefna nokkur.

Í fyrsta lagi viljum við að út verði gefin formleg yfirlýsing um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2012.

Hvers vegna segjum við þetta? Er það vegna þess að við óttumst að það verði ótryggur grunnur undir efnahagslíf framtíðarinnar ef villtustu draumar hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, ná fram að ganga um að hér á landi verði framleidd 1,4 millj. tonna af áli á ári hverju en sem kunnugt er er framleiðslan núna innan við 300 þúsund tonn? Er það einvörðungu vegna þess? Nei. Við teljum þetta hins vegar mjög óráðlegt að Íslendingar framleiði 5% af öllu áli í heiminum. Það sem við erum að horfa til eru skammtímaáhrifin. Við höfum orðið vitni að því að innlendir og erlendir peningabraskarar eru að pumpa tugum milljarða inn í íslenska hagkerfið til að hagnast á þeim vaxtamun sem er á milli Íslands og útlanda.

Það sem skiptir þessa braskara máli er hvert gengi krónunnar verður. Þeir vita að í genginu liggur þeirra áhætta. Ef krónan veikist þá eru þeir að taka mikla áhættu með peningana sína. (Gripið fram í: Þá tapa þeir.) Þá tapa þeir. Yfirlýsingar viðskiptaráðherrans um að á komandi árum verði ráðist í áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu fela það í sér að hún er að segja við þetta fólk að framhald verði á eftirspurn eftir krónunni sem þá tryggi og styrki krónuna. Það er vísbending og grænt ljós til braskaranna um að halda áfram að dæla peningum inn í fjárkerfið.

Við viljum beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Við viljum beina þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að íhuga vandlega að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum, a.m.k. tímabundið, yfirfara aðferðir við mælingar og þróun verðlags og athuga sérstaklega hvernig vænlegast sé að meta húsnæðiskostnað í vísitölu neysluverðs. Við viljum tryggja aðhald í ríkisfjármálum og þar viljum við láta endurskoða áform um skattalækkanir og við viljum efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir þessar og þátttöku um að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Við viljum víðtækt samráð í samfélaginu og sameiginlegt átak til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika á Íslandi.

Ég hef ekki margar mínútur til ráðstöfunar en vil þó segja þetta: Það er margt í íslensku efnahagslífi sem lofar góðu. Víða er uppbygging í atvinnustarfsemi. Þegar á heildina er litið hefur kaupmáttur farið vaxandi og velsæld verið mikil hjá stórum hópum í samfélaginu. Allt er þetta ágætt. Atvinnuleysi er tiltölulega lítið miðað við það sem verið hefur á undanförnum 10–12 árum. Það er um 1,4%. Það er of mikið en það er tiltölulega lítið miðað við það sem verið hefur.

Við sem berum ábyrgð á efnahagsstefnunni, og þá er ég að horfa til Alþingis, fyrst og fremst ríkisstjórnar og þeirra sem eiga að veita henni aðhald, okkar í þingsal, við hljótum að spyrja: Er byggt á bjargi eða er byggt á sandi? Það er enginn vandi að slá mikil lán og eyða og spenna og kaupa nýja bíla og auka kaupmáttinn. Það sem máli skiptir er að halda vel á spöðunum. Það er þetta sem við óttumst að sé ekki gert. Hér horfum við til vaxandi skulda íslensku þjóðarinnar, 310–315% af vergri landsframleiðslu, meira en nokkru sinni í sögu þjóðarinnar. Við stefnum í 14% viðskiptahalla á þessu ári, 140 milljarða. Á árinu 2003–2010 ætla menn að samanlagður viðskiptahalli nemi 500 milljörðum kr. Með öðrum orðum, þetta góðæri virðist vera byggt á sandi, á skuldum og meira að segja kemur fram í Peningamálum, riti Seðlabankans, að það sem er afgangs hjá ríkinu er einvörðungu vegna tímabundinna þensluskatta og það eru þessir hlutir sem við viljum horfa til. Að sjálfsögðu horfum við með ugg í brjósti á þá vaxandi mismunun og misrétti sem einkennir íslenskt þjóðfélag.

Þegar ég segi að við fögnum því að atvinnuleysi sé tiltölulega lítið þá er það einu sinni svo að við erum að tala um 2.267 einstaklinga í mánuði sem eru án atvinnu og þetta fólk hefur 91 þúsund rúmar í mánaðartekjur eða 85.252 þegar búið er að skattleggja það. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég hefði viljað ræða þessi mál miklu frekar og miklu nánar og við eigum eftir að gera það að sjálfsögðu á komandi vikum og mánuðum en þetta þingmál okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er tilraun til að taka á þeim vanda sem blasir við og reyna að færa málin til betri vegar.