132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þingsályktunar um að tryggja og endurheimta stöðugleika í efnahagsmálum. Ég hugsa að það sé sameiginlegt áhugamál allra þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að þörf sé á að huga mjög vel að stöðu efnahagsmála um þessar mundir. Þau má m.a. lesa út úr þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Það er ekki eins og fjármálaráðuneytið vari ekki við því á hvaða vegferð við erum. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Óhjákvæmileg afleiðing umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og aukinnar einkaneyslu heimilanna er vaxandi viðskiptahalli sem spáð er að nái hámarki í ár og verði 13,3% af landsframleiðslu og rúm 12% á næsta ári. Með auknum álútflutningi og samdrætti í innflutningi mun viðsnúningur í utanríkisviðskiptum einkenna hagvöxtinn árið 2007.“

Þessu er spáð fyrir árið 2007. Þá skulum við velta því fyrir okkur hvort spáin er í samræmi við það sem menn virðast vinna að í ríkisstjórninni. Í ríkisstjórninni vinna menn að ýmsu. Á minnisblaði sem ég hef fyrir framan mig segir að verið sé að skoða stóriðjukosti á miðju Norðurlandi. Þar segir að verið sé að skoða álver í Helguvík. Þetta er allt til viðbótar við það sem við vitum að er til staðar. Við vitum af framkvæmdunum fyrir austan, að þar er mikil uppbygging og þensla. Það er líka mikil þensla á suðvesturhorninu. Það tengist m.a. miklum húsbyggingum, lánveitingum bankanna og öðrum framkvæmdum á svæðinu. Inn í þetta kemur hækkun á íbúðaverði o.s.frv.

Við vitum að álverið í Straumsvík mun stækka á næstu árum. Mér finnst framsetningin á minnisblaðinu frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í þá veru að við getum horft til erfiðleika lengra inn í framtíðina en hér um ræðir, a.m.k. miðað við þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Vissulega sjást hættumerkin og við erum ábyggilega öll sammála um að menn megi hafa miklar áhyggjur af stöðu útflutningsgreinanna og gengismálum. Það liggur fyrir að þegar gengið fellur mun það hafa áhrif á kaupgetu fólks í landinu. Það mun gerast, hvort sem það gerist fyrr eða síðar. Að því leyti hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson algerlega rétt fyrir sér, að þegar gengið fellur mun kostnaður fólks við vöruinnkaup o.s.frv. almennt aukast.

Það er ekki einfalt að stýra efnahagslífinu um þessar mundir. Bankarnir búa við frjálsræði, hafa fengið frelsi. Ég hlustaði á föstudag á fyrirlestur seðlabankastjóra á landsfundi Landssambands smábátaeigenda. Þar ásakaði hann bankana um mikla útþenslustefnu í lánum, um að þeir misnotuðu frelsið sem þeim hefur verið fengið. Frelsið sem þeir fengu kom með einkavæðingu bankanna og síðan var farið í það að bjóða fasteignaveð á hagstæðum lánum til íbúðakaupa landsmanna. Því miður hefur allt þetta orðið til þess að þenslan hefur magnast umfram það sem ráð var fyrir gert. Ég held að enginn deili um það, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

En þá spyr maður. Hvað getur ríkisstjórnin gert í þessari stöðu? Það er a.m.k. þó nokkuð sem ríkisstjórnin getur gert. Ég ætla sérstaklega að gera eitt atriði að umræðuefni í lok ræðu minnar. Það er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Ég tel að ríkisstjórnin geti haft veruleg áhrif til að tryggja vinnufrið og tryggja að verkalýðshreyfingin eigi kost á að taka af fullri ábyrgð á komandi kjarasamningum. Við vitum jú að miðað við stöðu kjarasamninganna og verðbólguþróun geta kjarasamningarnir verið í uppnámi. Við höfum svo sem heyrt ýmsar yfirlýsingar frá verkalýðshreyfingunni um það, samtökum launamanna. Ég hef nokkrum sinnum sagt það í þessum ræðustól að ég tel að það hafi verið rangt hjá ríkisstjórninni að aflétta hátekjuskattinum og koma síðan með flata prósentulækkun í tekjuskattinum. Það hefði mátt velja leiðir sem hefðu kostað hið sama og jafnvel minna, eftir því hvernig þær væru útfærðar, a.m.k. að því er nemur að viðhalda ekki 4–5% hátekjuskatti. Ég held að það hafi verið afar misráðið.

Hins vegar hefði mátt fara með eitthvað af þeim fjármunum sem menn ætla til skattalækkana í persónuafsláttinn. Þannig hefði mátt hafa áhrif á launajöfnuð fólks í landinu. Slíkar aðgerðir gerðu það að verkum að verkalýðshreyfingin og fólk á hinum almenna vinnumarkaði sæi að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hefðu áhrif til jöfnunar á kjörum landsmanna. Með því væri ekki aukið á misskiptingu þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hér á landi og þeirra sem eru á lægri töxtum.

Ég hef miklar áhyggjur af því, hæstv. forseti, að misskipting í landinu aukist milli þeirra sem lakar eru settir og þeirra sem ofurlaunin hafa.