132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Í tillögunni eru nokkur meginatriði sem við leggjum til að unnið verði eftir. Tillögur okkar eru gerðar á grundvelli upplýsinga og álits frá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum í samfélaginu, frá bönkunum og aðilum viðskiptalífsins en ekki hvað síst frá samtökum atvinnulífsins, einstökum greinum atvinnulífsins vítt og breitt um landið.

Við viðurkennum fúslega að margt er gott og sterkt í efnahagslífi okkar. En það hefur einnig veikleika sem við eigum að hafa alla burði til að takast á við og færa til betri vegar ef við höfum vilja til og skiljum hvað um er að ræða. Við höfum heyrt ræður forustumanna ríkisstjórnarflokkanna, stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í haust og ræður forustumanna Sjálfstæðisflokksins. Þeir halda því fram að allt sé fullkomlega gott í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar og því engin ástæða til að vera á verði eða grípa til aðgerða til að halda þjóðarskútunni á réttum kili og vel á floti. En ef við lítum á raunveruleikann þá er hann ekki eins og þeir segja.

Háttvirtir þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa einmitt rakið það hver skuldastaða þjóðarbúsins er gagnvart útlöndum, að skuldir hafa hækkað stórlega og skert þannig efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar til að taka á sig aukin verkefni. Gengið hefur heldur betur, frú forseti, sigið á ógæfuhliðina og ekkert af þessu kom af himnum ofan. Þetta er vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og efnahagsmálum sem ekkert er reynt að rétta af.

Mig langar að vitna í ummæli nokkurra manna úr atvinnulífinu, frú forseti. Í Bæjarins besta segir í frétt frá 31. ágúst á þessu ári, með leyfi forseta:

„Pétur Sigurðsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir það skelfileg tíðindi sem bárust í morgun að rækjuvinnslu hjá Frosta hf. í Súðavík verði hætt, um sinn að minnsta kosti, síðar í haust. ... Pétur segir ljóst að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja allt undir í efnahagslífinu með virkjunum og byggingu álvers á Austurlandi sé farin að hafa skelfilegar afleiðingar víða á landsbyggðinni. „Það er öllum ljóst að meginvandamál sjávarútvegsfyrirtækja er hin sterka staða krónunnar um þessar mundir og afleiðingar þeirrar stefnu erum við að upplifa hér vestra þessa dagana.““

Ef við lítum, frú forseti, á ályktun Útvegsmannafélags Norðurlands segir í frétt í Ríkisútvarpinu 5. október síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Þær aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum skapa útflutningsatvinnuvegunum mikla erfiðleika, segir í ályktun aðalfundar Útvegsmannafélags Norðurlands. Gengi krónunnar sé allt of hátt og mun hærra en þessar greinar geti búið við.

Þessi þróun leiði til þess að afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi sé óviðunandi, fyrirtækin í taprekstri og eigið fé þeirra glatist verði haldið áfram á sömu braut, segir í ályktuninni. Á sama tíma og hátt gengi sé að sliga útflutningsgreinarnar hafi olíuverð hækkað ...“ — sem gerir samkeppnisstöðu þessara greina mun erfiðari.

Greint er frá skoðun framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda í kvöldfréttum útvarps 1. október síðastliðinn. Þar kom fram, með leyfi forseta:

„Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir: „Við höfum af þessu miklar áhyggjur og ég hef verið að funda með mínum félögum núna undanfarið og hafa streymt inn ályktanir þar sem þess er jafnvel krafist að stjórnvöld geri allar mögulegar ráðstafanir til að hamla gegn hinu gífurlega háa gengi krónunnar.““

Í sama fréttatíma er viðtal við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem tekur undir að hið opinbera eigi að aðstoða útflutningsgreinarnar við þær aðstæður sem nú eru. Hún vill reyndar líka aukið fjármagn til markaðsstarfa sem var skorið niður á fjárlögum þessa árs. En hún bendir einnig á hið gríðarlega háa gengi. Hún óttast afleiðingarnar ef ekki verði gerð leiðrétting fyrir næsta sumar þegar aðaltími ferðaþjónustunnar rennur upp og kynna verður þetta háa raungengi sem við nú búum við.

Það er kannski táknrænt fyrir ástandið að í dag var í fréttum sagt frá því að verið væri að bjóða upp eignir fyrirtækisins Sindrabergs á Ísafirði, sem miklar vonir voru bundnar við. Í frétt Bæjarins besta sagði frá því er rekstur fyrirtækisins stöðvaðist. Þar segir með, leyfi forseta:

„Með stofnun Sindrabergs ehf. 1999 var gerð tilraun til merkilegrar nýsköpunar á Ísafirði. Strax í upphafi var eðlilega gert ráð fyrir tapi af framleiðslunni fyrstu missirin og það gekk eftir. Fyrirtækið vakti verðskuldaða athygli fyrir framleiðslu sína innan lands sem utan. Flestir hafa starfsmenn verið um 30, en fyrirtækið hefur verið mikilvægur hlekkur í atvinnulífi heimamanna. Mikill rekstrarbati á árinu 2004 gaf von um að ná mætti endum saman á árinu 2005. Þróun gengis íslensku krónunnar gerði það hins vegar að verkum að þær vonir urðu að engu auk þess sem samkeppni jókst sem ekki var hægt að bregðast við m.a. vegna sterkrar stöðu krónunnar.“

Ég vitna hér í nokkur ummæli sem okkur þingmönnum hafa borist og lesin hafa verið upp í fréttum. En ríkisstjórnarflokkarnir segja að þetta allt í lagi. Ruðningsáhrifin eru líka af því góða, sagði hv. iðnaðarráðherra í fréttaviðtali í sumar þegar var verið að loka fyrirtækjum á Vestfjörðum og fólkið að missa atvinnuna. (Forseti hringir.) Eini maðurinn í stjórnarliðinu sem óttast þetta og tekur undir með okkur er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þótt hann skilji kannski ekki málið alveg til fulls.