132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:18]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að óttast að hann þurfi að kenna mér stafrófið alveg frá a í umræðum um þessi mál. Auðvitað er algerlega ljóst hvað í því er fólgið að tala um að gengið verði að aðlaga sig að íslenskum veruleika eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á áðan. Það stendur hvergi í þessari tillögu að markmiðið sé að varðveita að fullu kaupmátt íslensku krónunnar gagnvart erlendum varningi, enda verður þá auðvitað ekkert hreyft til. Þarna eru 6–8 mikilvæg og jafngild markmið sett fram sem auðvitað verður að leita bestu málamiðlana á milli. Það er ljóst að með því að nefna forsendur kjarasamninga og mikilvægi þess að halda stöðugleika á vinnumarkaði erum við auðvitað að vísa til þess ástands sem þar er uppi núna. Eða heldur hv. þingmaður, og fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambands Íslands á sinni tíð, að það auðveldi okkur glímuna við að ná aftur tökum á ástandinu og koma í veg fyrir allar þær fórnir sem færðar voru á sínum tíma og eru okkur báðum minnisstæðar, mér og hv. þingmanni, til þess að ná stöðugleikanum á tímum þjóðarsáttar; að það verði auðveldari glíma ef við missum tökin á ástandinu á vinnumarkaði og missum þar allt upp í loft?

Eitt af allra mikilvægustu markmiðunum er líka að verja eftir föngum kaupmátt umsaminna launa en það skiptir máli hvernig að því er staðið og hvernig það er gert. Hættan er sú ef ríkisstjórnin vaknar ekki af þyrnirósarsvefni sínum, og það er við ríkisstjórnina sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þarf fyrst og fremst að tala og jagast við en ekki við okkur, að þá verði hrunið miklu meira, þá verði gengiskollsteypan meiri og verðbólguskotið meira og þá vitum við hvernig fer með kaupmáttinn og skuldbindingar almennings þar sem lánin eru verðtryggð nánast að fullu. Það eru því ríkir hagsmunir í húfi gagnvart því að verja kjörin almennt eins og kostur er og standa þarf sérstaklega vörð um veikustu hópana. Það er að sjálfsögðu aðalverkefnið hér og það sem þessi tillaga tekur fyrst og fremst útgangspunkt í og það er með því hugarfari sem lesa ber markmiðin sem þarna eru sett upp.