132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:23]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þriðja desember á síðasta ári, daginn eftir að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 100 punkta, hélt ég langa ræðu hér um gengisstefnuna og hávaxtastefnuna. Ég gagnrýndi þar þá viðmiðun sem Seðlabankinn notaði. Ég fór yfir að verðbólgan svokallaða væri fyrst og síðast eignaverðbólga og það hefði ekkert upp á sig að sperra upp íslenskt gengi til að berjast gegn þeirri eignaverðbólgu. Í hæsta máta gæti það virkað öfugt. Ég gagnrýndi það mjög hörðum orðum í langri ræðu sem ég veit að hv. þm. Steingrímur Sigfússon man vel því að hann stóð fyrir henni að meira og minna leyti.

Ég fór líka yfir hvað það þýddi að hugsa sem svo að við ættum að berjast gegn verðbólgu ef hún kæmi af einhverjum völdum erlendis frá, eins og t.d. olíuverðshækkun. Við getum engu ráðið um það, enda skulu menn átta sig á því, virðulegi forseti, að t.d. þegar Bandaríkjamenn meta verðbólgu hjá sér miða þeir hana við sitt eigið efnahagslíf og taka ákvarðanir út frá því. Þetta gagnrýndi ég fyrir ári og gagnrýni mín er nákvæmlega eins í dag. Ef ég ætti að flytja þessa ræðu aftur breytti ég varla einum stafkrók í henni. Þetta er því ekkert nýtt frá minni hendi. Ég taldi þá að þetta væri vegferð sem gæti endað með skelfingu og fór yfir það lið fyrir lið hvernig útflutnings- og samkeppnisgreinarnar gætu farið út úr henni og stend við að allt í dag.