132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:27]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður læsi skrif Seðlabankans gaumgæfilega þá stendur þar mjög skýrum stöfum að að sjálfsögðu telji þeir að gengið muni leita jafnvægis síns á árunum 2006 og 2007. Þetta stendur í plöggum Seðlabankans. Hvað gerist þá? Halda menn að því fylgi ekki verðbólga? Jú, en Seðlabankinn telur að spíraláhrifin geti orðið minni ef við verðum komin út úr þeirri spennu sem þeir telja að peningamálin séu í í dag. Það er þeirra stefna, það hafa þeir sagt og þetta er eflaust sjónarmið sem við skulum bera virðingu fyrir.

Ég hef hins vegar haldið því fram að ef við hættum að hækka þessa stýrivexti, eins og t.d. ef við hefðum látið það vera að hækka stýrivexti 29. september sl. þá hefði gengið sigið niður í 108–110 sem hefði þó verið miklu betra, það hefði haldið áfram að síga. Það er óumflýjanlegt að við náum jafnvægi. Ég tel að við getum ekki beðið í tvö ár eftir að ná jafnvægi, að útflutningsframleiðslan muni hrynja á þeim tíma og gengið hrynja í kjölfarið. Menn muni missa trúna á þetta efnahagskerfi, það kæmi flótti og hræðsla í liðið og þá gætu afleiðingarnar orðið miklu verri eins og við fórum yfir áðan, virðulega forseti.

Það sem ég er að segja er að við eigum að fara varlega, reyna eftir fremsta megni að láta gengið síga þannig að framleiðslan geti lifað en bláni ekki upp og deyi. Ég er að tala um að fara varlega til að koma í veg fyrir hrun í genginu, en auðvitað undir öllum kringumstæðum kemur einhver verðbólga. Við verðum bara að sætta okkur við hana, fara í gegnum það en byrja svo upp á nýtt.