132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:37]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur orðið bæði á fimmtudaginn var og aftur núna í dag um þessa tillögu okkar um efnahagsmál. Ég vil sérstaklega þakka þingmönnum sem hér hafa tekið til máls úr Frjálslynda flokknum og Sjálfstæðisflokknum fyrir þátttöku í umræðunni. Ég get ekki neitað því að ég sakna þess svolítið að fulltrúar annarra flokka, þ.e. Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins að því slepptu sem hæstv. forsætisráðherra tók þátt í umræðum síðastliðinn fimmtudag, hafi ekki tjáð hug sinn til málsins. En þeir velja sér væntanlega einhver önnur tækifæri til að gera það þá sem þeir telja heppilegri og betur til þess fallin.

Ég held að það verðskuldi alveg umræður á hinu háa Alþingi að ræða þá dapurlegu staðreynd að við þurfum að ræða orðið um efnahagslegan stöðugleika í landinu í þátíð. Það hefur enginn mótmælt þeim titli þessarar þingsályktunartillögu að viðfangsefnið sé að endurheimta efnahagslegan stöðugleika því hann er ekki til staðar. Til marks um það eru vitnisburðir sérfræðinga og stofnana eins og Seðlabankans, greiningardeilda bankanna og alþjóðastofnana sem ítrekað vara nú við því jafnvægisleysi sem er í efnahagsmálum.

Ég held að það sé alveg ljóst að þær hættur sem við stöndum frammi fyrir í þessu efni eru margvíslegar og tengjast óstöðugleikanum og jafnvægisleysinu. En það er tvennt sem augljóslega gerir ástandið langalvarlegast. Það er annars vegar sú hætta sem blasir við, þ.e. að hagkerfið brotlendi vegna þess að gengi krónunnar og afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina er algerlega óviðunandi og horfurnar í þessum efnum til næstu tveggja ára eða svo slæmar. Verðbólguhorfur næstu tveggja ára eru enn óviðunandi að mati Seðlabankans. Þeim mun lengur sem þetta ástand varir þeim mun meiri er hættan á harkalegri brotlendingu, á gengiskollsteypu og verðbólguskoti sem leiði yfir í fjármálakerfið í formi greiðsluerfiðleika o.s.frv. Hitt sem gerir ástandið mjög varhugavert er hin gríðarlega skuldsetning, skuldsetning heimilanna, skuldsetning atvinnulífsins og skuldsetning þjóðarbúsins út á við því að þjóðarbúið og þessir aðilar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum í gengi og vöxtum vegna þungrar greiðslubyrði af erlendum skuldum. Heimilin eru að vísu sem betur fer ekki í stórum mæli enn farin að taka erlend lán eða lán í erlendri mynt. En lán heimilanna eru nánast að uppistöðu til verðtryggð þannig að um leið og verðbólgan hreyfir sig fer greiðslubyrðin af þeim lánum upp á við og á fulla ferð. Þess vegna er svo mikilvægt að reyna að afstýra þessu þensluástandi, þessu jafnvægisleysi sem allir viðurkenna að er, og að menn fari að reyna að ná tökum á ástandinu, snúa hlutunum við og tryggja að þetta geti aðlagast og komist í eðlileg horf án þess að veruleg brotlending verði. Þess vegna var það nokkurt umhugsunarefni að hæstv. forsætisráðherra kom hér upp í þessum umræðum á fimmtudaginn var og endurtók í raun sama stefið um hvað allt væri gott og stórkostlegt á Íslandi og að hér væru í raun engin vandamál. Menn láta eins og það séu engin vandamál af því að viðfangsefnið sé að ná tökum á spennu, á þenslu, á verðbólguhættu og hættu á gengishruni og að það sé svona góðkynjaður vandi sem menn eru að glíma við og að það sé eitthvað annað en að kljást við atvinnuleysi og samdrátt. Auðvitað vill enginn atvinnuleysi og samdrátt. En sýnir ekki reynslan okkur að einmitt þessar aðstæður eru stundum undanfari verstu áfalla sem menn verða fyrir sem jafnvel enda í atvinnuleysi ef illa tekst til, ef illa fer? Hvað eru uppsagnir fólks í stórum stíl í útflutnings- og samkeppnisgreinum annað en ávísun á færri störf og minni umsvif þeirra greina þegar frá líður? Auðvitað er það ekkert annað.

Sveiflan getur verið mjög hröð. Þetta getur snúist snöggt við frá því að hér hefur verið skortur á vinnuafli í ákveðnum greinum og hundruð og þúsundir útlendinga við störf yfir í hitt að aftan að okkur læðast verulegir erfiðleikar í okkar hefðbundna atvinnulífi. Þeir blasa nú við hverjum þeim sem vill leggja við því eyru og hv. þm. Jón Bjarnason las hér upp m.a. nokkrar ályktanir og vitnaði í fjölda forsvarsmanna í atvinnulífinu því til stuðnings.

Það var athyglisvert þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór yfir þessa tillögu áðan að í aðalatriðum var hann þegar upp var staðið efnislega sammála öllum meginliðum tillögunnar sem eru í 6 tölusettum liðum, nema þá kannski helst þeim fyrsta, þ.e. að það gengi ekki að stjórnvöld færu í stóriðjubindindi og lýstu því yfir til þess að hjálpa til í þessum efnum og kæla hagkerfið niður að nú yrði ekki stuðlað að af opinberri hálfu né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar hefur verið ákveðið á ákveðnu árabili. Menn hafa, og hæstv. forsætisráðherra einnig, talað eins og það sé ekki á valdi stjórnvalda, það sé ekki á færi hins opinbera að hafa áhrif á framvinduna á þessu sviði. Þetta er mikill misskilningur, frú forseti. Eru menn búnir að gleyma því að það er akkúrat hið opinbera sem knýr þessar framkvæmdir áfram og keyrir þær inn í hagkerfið algerlega? Hver var það sem boðaði fyrstur stóriðjuframkvæmdirnar eystra? Það var hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra. Og hverjir standa fyrir framkvæmdunum? Það er hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun. Hverjir veita leyfin? Það eru ráðherrar í ríkisstjórnum og það eru sveitarstjórnir. Hverjir ábyrgjast lánin? Það er ríkið. Hverjir flytja frumvörp og setja sérlög um skattaleg atriði þessara framkvæmda? Það er ríkið og það er Alþingi. Ramminn utan um þessar framkvæmdir allar er algerlega opinber og ef það er niðurstaða okkar að hagkerfið þoli ekki að troðið sé fleiri slíkum stórframkvæmdum inn í það á skömmum tíma með tilheyrandi ruðningsáhrifum og tilheyrandi þenslu og spennu þá höfum við öll tök á því sem betur fer, a.m.k. að þessu leyti, að hafa áhrif á framvindu mála. Það er alveg augljóst mál.

Það væri náttúrlega illa komið ef við gætum það ekki, ef þannig væri að stjórnvöld yrðu að taka við hverju sem kemur af þessum toga og við yrðum þá að færa þá fórn á móti að ryðja út enn meiru af öðru atvinnulífi í staðinn og skerða kaupmáttinn eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét í rauninni að liggja hér, að fórnarkostnaðurinn yrði þá m.a. falinn í því að skerða kaupmáttinn því annars færi allt í vitleysu. Þá færu kannski að renna grímur á einn og einn mann sem hefur asnast til að styðja þessa blindu stóriðjustefnu hingað til ef það bætist við að við séum algerlega varnarlaus fórnarlömb gagnvart henni. En það er ekki þannig. Auðvitað er það ekki þannig að við þurfum að sitja upp við iðnaðarráðherra sem flakkar á milli landshluta og boðar stóriðju hér og stóriðju þar, stóriðju í álveri í Helguvík, álver fyrir norðan, stækkun á Grundartanga, stækkun í Straumsvík, rafskautaverksmiðju í Hvalfirði og eitthvað fleira. Þetta er allt í gangi og það er látið eins og það sé alveg mögulegt, að taka þetta allt saman inn í hagkerfið þó að við mönnum blasi að til viðbótar því sem var auðvitað harðasta deiluefnið, sem eru umhverfisspjöllin sem t.d. Kárahnjúkavirkjun eru samfara, þá er núna allt að sannast sem við sögðum og vöruðum við gagnvart ruðningsáhrifum þeirra stórframkvæmda í hagkerfinu. Það er bara ósköp einfaldlega þannig.

Mér er með öllu óskiljanlegt að menn skuli láta þessa stefnu halda óbreytta áfram og láta eins og ekkert sé. Ég hef spurt að því áður og get endurtekið það: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að láta Framsókn leiða sig í bandi í gegnum brunarústirnar á íslensku atvinnulífi allt til enda, bara til að Framsókn geti þjónað áfram stóriðjutrúboði sínu? Hvað þurfa uppsagnirnar að verða margar í sjávarútvegi áður en einn og einn sjálfstæðismaður fer að vakna til lífsins? Eða er þeim alveg sama þó að landvinnsla á sjávarfangi leggist að meira eða minna leyti af á Íslandi? Það er m.a. það sem er að gerast mjög ört þessa dagana. Það er sá hluti keðjunnar sem skilar þrátt fyrir allt mestum virðisaukanum inn í landið og mestum margfeldisáhrifum eins og nýlegar úttektir hagfræðinga sýna ef hann er sleginn af.

Sama gildir í rauninni um skattstefnuna sem ríkisstjórnin getur ekki viðurkennt að hafi verið mistök. Það blasir við öllum. Það er varla nokkur maður sem er kominn á annað missiri í hagfræði sem ekki veit að skattalækkanir við þessar aðstæður upp á tugi milljarða kr. eru bara eins og hrein della. Það er olía á eldinn. Þegar viðfangsefnið er bullandi viðskiptahalli og þensla og hætta á verðbólgu, og við blasir að handan við hornið getur tekjustreymi til ríkissjóðs þornað mjög snögglega upp, hvað ætla menn þá að gera þegar allt í einu snöggdregur úr tekjum ríkissjóðs af innflutningi og neyslusköttum? Þá verða menn búnir að henda út beinum og traustum tekjustofnum upp á hátt í 30 milljarða kr. ef svo heldur sem horfir frá og með áramótum 2006– 2007. Þá verður ekki mjög gaman að vera fjármálaráðherra. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er ótrúlega ábyrgðarlaus í þessari framgöngu sinni, ótrúlega ábyrgðarlaus. Það getur vel verið að þeir séu að veðja um það að veislan haldi, að það takist að halda veislunni áfram fram yfir kosningar 2007, vorið 2007 og það virðist allt ganga út á það núna hjá talsmönnum stjórnarflokkanna, nema þá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að láta sem ekkert sé. Vandamálið er ekki til ef menn viðurkenna ekki tilvist þess, ef menn aðeins afneita því. Þá er það ekki þarna. Það er aðferðafræði hæstv. forsætisráðherra sem á að heita yfirmaður efnahagsmála í núverandi ríkisstjórn.

Það er til önnur samlíking yfir þá aðferð. Hún er ættuð frá Ástralíu. Að stinga hausnum í sandinn. Það er það sem strúturinn gerir í Afríku og emúfuglinn gerir í Ástralíu. Þegar hætta steðjar að er bara eitt að gera, það er að stinga hausnum í sandinn, þá sér maður ekki hættuna, hún er ekki til. Þetta gefst nú svona og svona.

Auðvitað væri eina vitið við þessar aðstæður að stjórnvöld boðuðu nú á nýjan leik til samræðu í þjóðfélaginu um það hvernig við náum tökum á ástandinu ef illa fer, kölluðu til aðila vinnumarkaðarins, kölluðu til heildarsamtök og hagsmunaaðila og segðu: Nú er vá fyrir dyrum. Við erum í stórkostlegri hættu með að fórnirnar sem voru færðar á sínum tíma til að ná tökum á verðbólgunni og innleiða stöðugleika í íslenskt efnahagslíf verði aftur til einskis og við gætum þurft að endurtaka leikinn með því blóði, þeim svita og þeim tárum sem það tók og því gríðarlega átaki sem það var fyrir íslenskt þjóðarbú að ná tökum á ástandinu eftir verðbólguáratugina á síðustu öld. Þeim sem gengu í gegnum þá lífsreynslu er það mjög minnisstætt. Þess vegna finnst mér mjög undarlegt af hversu mikilli léttúð sumir sem eiga þó að búa að þeim reynslusjóði fjalla um þá hluti þessa dagana, að vera á fullkomnu afneitunarstigi gagnvart því að ástandið sé eins og raun ber vitni.

Hæstv. forsætisráðherra vísaði mikið í máli sínu í glæsilega einkunnagjöf alþjóðastofnana og tíndi út úr því það sem hentaði frá Alþjóðabankanum, Efnahags- og framfarastofnuninni OECD o.s.frv. Þetta varð mér tilefni til þess, frú forseti, að fara í árshefti OECD fyrir Ísland sem kom út í aprílmánuði síðastliðnum. Ég fletti m.a. upp á því sem OECD segir um skattalækkanirnar og hvað er þar sagt? Þar segir OECD að þær séu einstaklega illa tímasettar og varar við þeim. Hvað hefur Alþjóðabankinn verið að segja í sínum álitsgjöfum? Hann hefur varað við skuldsetningunni, hann hefur varað við viðskiptahallanum. Auðvitað hæla þessar stofnanir sem eru forritaðar í anda nýfrjálshyggjunnar þeim sem eru að einkavæða og reka hægri stefnu í skatta- og efnahagsmálum en þær eru þó það heiðarlegar að þær mæla mjög alvarleg varnaðarorð á móti. Nei, frú forseti. Það getur vel verið að meira þurfi til en þessa tillögu okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þær umræður sem hér hafa farið fram til þess að vekja hæstv. ríkisstjórn af þyrnirósarsvefni sínum. En því miður er það svo að hún mun fyrr eða síðar vakna. Hitinn mun vekja hana. Hitinn af eldunum sem fara að loga í hagkerfinu mun vekja ríkisstjórnina. Spurningin er bara hversu sviðin verður hún orðin þegar þar að kemur. Ég mundi ekki sofa mikið lengur rólegur í þeirra sporum ef ég ætlaði ekki að verða illa brenndur á fiðrinu áður en lýkur. Ég spái ekki vel fyrir því, frú forseti, ef ríkisstjórnin aðhefst ekkert í þessum efnum, nær ekki einhverju sambandi við aðila vinnumarkaðarins, fer ekki að vinna með Seðlabankanum í staðinn fyrir að vinna á móti honum í þessum málum.