132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[16:53]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um tryggan lágmarkslífeyri. Tillagan hefur verið flutt af þingmönnum Frjálslynda flokksins undanfarin ár og ég held að nú séum við að leggja hana fram í fimmta sinn til umræðu í hv. þingi. Ég geri mér vissulega vonir um að að lokum muni dropinn hola steininn og það muni draga til þess að efni tillögunnar nái þeirri stöðu í umræðunni að menn skoði hana af fullri alvöru á ríkisstjórnarheimilinu en á það hefur mér fundist skorta verulega á undanförnum árum.

Tillagan gengur út á að draga verulega úr þeim skerðingarákvæðum sem núna eru varðandi tekjur fólks úr lífeyrissjóði og að þær tekjur sem fólk hefur aflað sér með því að spara í lífeyrissjóðum sínum til margra ára verði ekki til þess að bætur almannatrygginga séu skertar eins og gert hefur verið á undanförnum árum með svokallaðri 45% skerðingarreglu.

Þannig er, hæstv. forseti, að bætur almannatrygginga sem allir ellilífeyrisþegar eiga rétt á eru skertar af tekjum sem fólk hefur safnað sér upp sem inneign í lífeyrissjóði með 45% reglunni og verður þá til þess að fyrir hverjar 10 þús. kr. sem fólk fær úr lífeyrissjóði sínum eru bætur skertar um 4.500 kr., þ.e. bótaflokkurinn í heild sinni lækkar um 4.500 kr. Bætur fólks úr almannatryggingunum eru misjafnar eftir því hvort um er að ræða einstaklinga eða hjón og síðan eru tekjutengingar á milli sambúðarfólks og maka. Til að einfalda umræðuna held ég að einfaldast sé að halda sig við stöðu einhleypings í málinu og velta því upp án þess að tengja það beinlínis við tekjur maka eða eignarstöðu hvernig sú skerðingarregla sem núna er notuð í almannatryggingum virkar.

Eins og ég sagði áðan í máli mínu er það einfaldlega þannig að ef einstaklingur á réttindi í lífeyrissjóði upp á 10 þús. kr. missir hann niður 4.500 kr. af bótum sínum úr almannatryggingum. Þegar einstaklingur hefur tekjur úr lífeyrissjóði upp á 144 þús. kr., ef hann hefur verið svo heppinn sem því miður margir eru ekki að hafa verið í þannig stöðu á starfsævi sinni að vera komnir með þann rétt í lífeyrissjóði að eiga 144 þús. kr. útgreiðslu á mánuði út úr lífeyrissjóði sínum, en ef hann væri í þeirri stöðu að fá þá upphæð er staðan sú í tryggingakerfinu, í bótunum sem samanlagðar lágmarksbætur geta hugsanlega numið hjá einstaklingi allt að 104 þús. kr. á mánuði, þá er staðan sú að það sem eftir lifir af bótum almannatrygginga er eingöngu 21.993 kr. eða grunnlífeyrir, það sem oft hefur verið kallaður ellilífeyrir eða var það í gamla daga en er núna kallaður grunnlífeyrir.

Grunnlífeyririnn skerðist ekki við tekjur úr lífeyristryggingakerfinu. Grunnlífeyririnn skerðist hins vegar ef ellilífeyrisþegi færi út á vinnumarkaðinn og aflaði sér atvinnutekna til viðbótar, þá mundi hann missa niður grunnlífeyrinn. Það hefur verið sýnt fram á og er vitað og hefur verið rætt hér á undanförnum árum að ef fólk þarf á því að halda sem margir þurfa, þ.e. að fara út á vinnumarkaðinn og afla sér viðbótartekna, að þegar búið er að taka tillit til annars vegar skerðingarákvæða Tryggingastofnunar og hins vegar tekjuskattsins þá heldur fólk í rauninni ekki eftir nema rétt tæpum 1.600 kr. af hverjum 10 þús. kr. sem það þénar. Ef fólk er búið að nýta persónuafslátt sinn og á réttindi í lífeyrissjóði lendir það í skerðingum, þ.e. ef það á litla inneign í lífeyrissjóði, undir 144 þús. kr., fær það 45% skerðingu vegna viðbótartekna í atvinnulífinu og síðan kemur skattlagning. Þegar þetta er allt saman lagt saman og búið að fullnýta persónuafsláttinn kemur þetta svona út, að fyrir hverjar 10 þús. kr. sem fólk aflar sér með atvinnu til viðbótar við lífeyristekjur og almannatryggingar heldur það eftir tæplega 1.600 kr., þ.e. skerðingin er tæplega 85% á viðbótartekjunum.

Tillaga okkar í Frjálslynda flokknum gengur einfaldlega út á að leggja til að staða eldri borgara verði lagfærð með því að setja inn í regluverkið og lögin að fyrstu 50 þús. kr. frá lífeyrissjóði skerði engar bætur frá almannatryggingum og því engar samþykktar lágmarksbætur almannatrygginga. Þar af leiðandi fengju þeir sem ættu undir 50 þús. kr. þann pening án þess að það skerði bætur almannatrygginga. Þeir fengju þannig 50 þús. kr. til viðbótar við 104 þús. kr. eða 154 þús. kr. Þær tekjur yrðu ekki skertar en mundu að sjálfsögðu skerðast vegna skattlagningar, eftir sem áður væru tekjurnar samanlagðar notaðar sem skattstofn, miðað við lög okkar í dag.

Löngum hefur verið bent á að persónuafslátturinn hafi ekki hækkað á undanförnum árum eins og nauðsynlegt hefði verið. Við höfum oft fært fyrir því rök í þessari umræðu. Ég ætla svo sem ekki að fara mörgum orðum um það en það er ljóst að hægt væri að hækka persónuafsláttinn um 2.700 kr. á mánuði fyrir hvern einasta landsmann ef ríkisstjórnin hefði valið það að nota ekki 1% flatan tekjuskatt heldur hækka persónuafsláttinn. Það kostar 4 milljarða kr. svipað og 1% lækkunin en hefur allt önnur áhrif í kerfinu. Þar með værum við að nota skattalækkunina til jöfnunar og til að bæta afkomu þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Kjarabætur þeirra sem betri tekjurnar hafa verða hins vegar mestar með tillögu ríkisstjórnarinnar um skattalagabreytingar.

Við höfum lagt til að í stað þess að 45% reglan taki við strax og 50 þús. kr. er náð úr lífeyrissjóði þá komi þrepaskipting í skerðinguna. Fyrir fyrstu 10 þús. kr. umfram 50 þús. kr. verði skerðingin 9%, eða einn fimmti þess sem nú er. Fyrir næstu 10 þús. kr., frá 60–70 þús. kr., verði hún 18%, fyrir næstu 10 þús. kr. frá 70–80 verði hún 27%, fyrir næstu 10 þús. kr. þar á eftir 36% o.s.frv. Það er ekki fyrr en við teljum í 100 þús. kr. að skerðingin nær 45% eins og hún er í dag. Þetta mun auðvitað hafa í för með sér að rauntekjur ellilífeyrisþega mundu lagast verulega og hefði mikil áhrif til að bæta stöðu ellilífeyrisþega. Við fjölluðum um þetta í umræðum um tillögu Samfylkingarinnar í síðustu viku. Sú tillaga fjallar um afkomutryggingu eldri borgara og tekur að hluta til á sama máli. En við höfum í tillögu okkar útfærslu sem við teljum að gæti dugað við samtengingu launa, lífeyristekna og tryggingabóta, þ.e. með því að fara með þetta svona í þrepum.

En nú ber nýrra við, hæstv. forseti. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins segir í ályktun um tryggingabætur og samtengingu lífeyris, sem þeir hafa hafnað að taka inn í stefnumótun á undanförnum árum:

„Landsfundur samþykkir að afnema skuli tekjutengingu á grunnlífeyri, skerðingarhlutföll tekjutryggingarauka verði lækkuð í áföngum úr núverandi 45% og að lokum afnumin. Frítekjumörk vegna tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði endurskoðuð til hækkunar.“

Guð láti gott á vita. Það er gott að sjálfstæðismenn séu farnir að álykta um að endurskoða þurfi þessi mál. En við eigum eftir að sjá hvort hugur fylgir máli. Svona ályktanir hafa iðulega komið frá landsfundum Sjálfstæðisflokksins, því miður án þess að mikill vilji hafi verið til að fylgja þeim eftir. En á það mun reyna.

Nú liggur fyrir tillaga sem ég hef mælt fyrir, hæstv. forseti. Ég vonast til að hún verði til þess að þessi mál verði endurskoðuð. Einnig liggur fyrir tillaga Samfylkingarinnar um þessi mál og Vinstri grænir tóku utandagskrárumræðu um málefni eldri borgara. Ég held því að stjórnarandstaðan öll sé sammála um, og hafi verið það lengi, að þessi mál þurfi að lagfæra. Auðvitað mun reyna á það á þessu þingi hvort ríkisstjórnarflokkarnir vilja vinna sig í átt að tillögunni sem hér um ræðir og fleiri hafa tekið undir, m.a. hv. þm. Ögmundur Jónasson. Með þeirri útfærslu yrði til brú fyrir eldri borgara sem í dag eiga engan veginn nægilegan lífeyri í lífeyrissjóði sínum, næga inneign í lífeyrissjóði til að geta lifað af honum. Þótt Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari hafi spáð því að stutt væri í gullna tíð eldri borgara á landinu, vegna öflugra lífeyrissjóða þeirra, þá vitum við að því miður eru margir sem eiga lítið í lífeyrissjóðum. Ef ég man rétt eiga 45% öryrkja enga inngreiðslu í lífeyrissjóð, engan rétt.

Margar húsmæður eiga sáralítinn rétt í lífeyrissjóði. Sumar stéttir eiga sáralítinn rétt í lífeyrissjóði, ég get nefnt bændur sem dæmi. Verkamenn, sem ekki hafa haft há laun í gegnum tíðina, eiga litlar eignir í lífeyrissjóði. Ég held, því miður, að það sé lengra í hina gullnu framtíð eldri borgara en menn hafa nefnt. Ég held að þessi tillaga væri ákaflega góð brú yfir til þess tíma er lífeyririnn verður styrkasta stoð eldri borgara.