132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:34]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er tillaga frá okkur í Frjálslynda flokknum sem gengur út á að bæta kjör eldri borgara landsins. Ég tel að tillagan sé mjög góð enda hafa þeir eldri borgarar sem við höfum kynnt hana fyrir tekið mjög vel undir hana. Það má líka finna ákveðinn samhljóm meðal stjórnarandstöðunnar í tillögum til þess að bæta kjör eldri borgaranna. En þrátt fyrir að innan herbúða stjórnarliða megi heyra einstakar raddir um að vilji sé til þess að bæta kjör þeirra eru verkin sem við horfum upp á því miður allt önnur.

Það segir meira en mörg orð að enginn framsóknarmaður hefur tekið þátt í umræðunni og kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Þeir mundu eflaust hópast hér í ræðustólinn ef við værum að ræða um álver eða eitthvað viðlíka en ef það á að ræða um fólkið í landinu og velferð þess er eins og þessi mál komi flokknum nánast ekkert við. En við eigum von á einum hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins til að taka þátt í umræðunni og er það vel. Það verður fróðlegt að fá að heyra boðskap hv. þingmanns og hvort samhljómur verði meðal hans og þeirra radda sem bárust frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. En ég er ekkert viss um að svo sé, langt í frá. Ekki ef marka má t.d. það sem hv. þingmaður Pétur H. Blöndal sagði í sjónvarpinu í morgun. Það var nánast eins og allt léki í lyndi hjá eldri borgurum landsins. En það er ekki svo. Það má einfaldlega sjá á því að það eru 11.000 eldri borgarar sem þurfa að framfleyta sér og greiða skatta af tekjum sem eru undir 110 þús. kr., það er þriðji hver eldri borgari í landinu.

En eins og ég sagði má greina aðrar raddir úr herbúðum stjórnarflokkanna og m.a. frá fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Guðmundi H. Garðarssyni, núverandi formanni eldri borgara Sjálfstæðisflokksins, en hann vildi einmitt koma þeim skilaboðum að á landsfundinum að breyta þyrfti tekjuskattskerfinu og kjörum eldri borgara. Hann tekur því algjörlega undir stefnu okkar í Frjálslynda flokknum. Ég segi við þann ágæta mann: Hvað í ósköpunum er hann að gera í Sjálfstæðisflokknum þegar Sjálfstæðisflokkurinn gengur alltaf meira og meira á kjör eldri borgara? Hvers vegna gengur þessi maður ekki einfaldlega til liðs við okkur í Frjálslynda flokknum í stað þess að róa á móti stefnumiðum sínum sem hann boðar á fundum? En það er ekki að sjá t.d. hér í salnum eða í stjórnarstefnunni að stjórnarflokkarnir vilji breyta neinu.

Nánast einu sparnaðartillögurnar í ríkisrekstrinum gengu út á að skerða kjör hreyfihamlaðra. Nú er það svo að margir eldri borgarar eða sumir hverjir eru hreyfihamlaðir þannig að þetta voru skilaboðin í fjárlagafrumvarpinu. Það er í rauninni mjög sérstakt að menn skuli enn þá halda sér innan þessara flokka sem ganga þvert á hagsmuni þeirra og blása út alls konar montstofnanir hingað og þangað, vilja jafnvel fara inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og eyða peningum hér og þar.

En það eru ekki allir þannig. Í morgun hringdi í mig fyrrum liðsmaður stjórnarflokkanna sem hafði tekið eftir umræðu okkar í Frjálslynda flokknum varðandi kjör eldri borgara. Hann sagði einfaldlega: Þetta getur ekki gengið lengur. Ég er hér með uppgjörið mitt og á því er 82.171 kr. Af því þarf ég að borga, sagði hann, 2.682 kr. í skatt til hæstv. formanna stjórnarflokkanna, Geirs H. Haarde og Halldórs Ásgrímssonar. Auðvitað þurfa þeir að fá peninga til að leggja í hin og þessi verkefni og allt í góðu. En ég er ekki viss um að það þurfi að taka þá af þeim mönnum sem eru með langt undir 100 þús. kr., að þar eigi að skerða um 2.500 kr. Mér finnst það vera della. Það er einmitt það sem formaður Félags eldri borgara í öðrum stjórnarflokknum sagði, þessu þarf að breyta. Það þarf að breyta tekjuskattskerfinu því það er komið út í ógöngur. Menn eru farnir að skattleggja eldri borgara í auknum mæli og þá sem hafa lök kjör, ég held að allir geti tekið undir það, öryrkjar eru skattlagðir til þess að aflétta sköttum af öðrum, þ.e. hátekjuskattinum. Þetta er bara vitleysa og ég vona að hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson taki nú undir með okkur Guðmundi H. Garðarssyni, formanni Félags eldri borgara. Þessu þarf að breyta, það er ekkert vit í þessu.

Í síðustu viku tóku ágætir hv. þingmenn, sjálfstæðismenn, þátt í umræðunni um kjör eldri borgara og ræddu um að fasteignaskattarnir væru aðalvandamálið. Ég ræddi einmitt við áðurnefndan mann af Vestfjörðunum sem greiðir fasteignaskatt til Ísafjarðarbæjar og forvitnaðist um hversu mikið hann greiddi. Hann greiddi 60 þús. kr. með afslætti í fasteignagjöld til Ísafjarðarbæjar en þar ráða sjálfstæðismenn ríkjum. Ég vona að menn hafi tekið eftir því að það sem hefur runnið í skatt til ríkisins á þessu ári verður eitthvað svipuð upphæð þannig að ég held að þetta geti verið að einhverju leyti … þetta er ekki sú upphæð. Ég held að menn verði að skoða úr hverju þetta fólk hefur að spila. Ég vona að hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson átti sig á því að þetta eru ekki góð kjör.

Það hefur verið minnst á konur í þessu sambandi, að þær eigi ekki mikinn lífeyrisrétt, og einnig hefur verið rætt um bændur. Síðan er þriðji hópurinn sem þessi ágæti maður að vestan tilheyrði en það eru fyrrum atvinnurekendur sem hafa e.t.v. ekki greitt í lífeyrissjóð öll árin. Það þarf að líta til þess hóps líka, þó svo að þessi tillaga gangi aðallega út á að ekki sé verið að skerða lífeyri greiddan úr lífeyrissjóði, lágar upphæðir sem eru kannski ekki hærri en 50 þús. kr. Enda er það orðið mjög sérstakt að sá lífeyrir skuli skerðast, þarna er fólk búið að spara allt lífið. Þetta er eins og í slönguspilinu, það sama hvað hvað lagt er fyrir inn á lífeyrissjóðsreikning, fólk stendur í sömu sporum á eftir. Því get ég tekið undir að það megi ekki algjörlega líta fram hjá þeim hópum sem hafa ekki (Forseti hringir.) greitt í lífeyrissjóði.