132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:53]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú dálítið síðan ég skoðaði þetta reiknilíkan og það er vafalaust rétt að þetta hefur áhrif. Ég hélt þó á sínum tíma þegar ég skoðaði þetta síðast að við mættum passa okkur á skerðingunum vegna þess að menn eru að tvíreikna þetta þegar verið er að taka bæði skattinn og að þetta sé tekjutrygging vegna þess að menn geti ekki unnið. Við erum að reyna að búa til bætur fyrir þá sem geta ekki unnið.

Ég hallaðist alltaf að því að skattleysismörkin gætu verið enn þá effektífari hlutur í þessu þó að ég ætli ekki alveg að fullyrða um það af því að ég er ekki með þessar tölur fyrir framan mig en hvort tveggja kemur til greina. Við hljótum að skoða skattleysismörkin í þessu sambandi því ég er viss um að það kemur inn til ríkisins að stórum hluta aftur.