132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[18:06]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Við lok umræðunnar vil ég þakka þátttöku þeirra hv. þingmanna sem hafa komið upp í ræðustól og rætt þessi mál. Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni. Ágætisumræða um málefni eldri borgara hefur farið fram í hv. Alþingi á undanförnum dögum og umræðan í dag hefur vissulega upplýst þessi mál enn frekar.

Það er kannski eitt samt sem ég vil víkja að í framsetningu tillögu okkar. Eins og menn vita er hún byggð þannig upp að í stað þess að skerðingarnar komi beint með 45% reglunni eru sett þrep, þ.e. 50 þús. kr. skerði ekkert og síðan komi þrep á hverjar 10 þús. kr. þar á eftir upp að 100 þús. kr. Þá sé þeirri fullu skerðingu náð sem núna er 45%. Þetta held ég að sé ákveðin leið til að ná meira réttlæti í þessari útfærslu. Ég vek líka athygli á að þessi útfærsla gerir það að verkum að þegar fólk fer að eiga hærri inneignir í lífeyrissjóði sem verður vonandi á næstu árum, þó ég sé alveg sannfærður um, því miður, að við munum búa við það sennilega ein 20 ár í viðbót eða jafnvel lengur að þó nokkur hópur Íslendinga muni ekki eiga mikil réttindi í lífeyrissjóði, þá muni lífeyrisréttur fólks batna. En samt sem áður mun þeim örugglega fjölga sem á komandi árum munu eiga aukinn rétt í lífeyrissjóði.

Það er rétt sem sagt hefur verið að stoðir lífeyriskerfisins á komandi árum verða þrjár. Það verður almannatryggingalífeyririnn, það verða almennu lífeyrissjóðirnir, söfnunarsjóðirnir okkar og það verður séreignarsparnaðurinn. Þetta er lífeyriskerfi eins og við höfum ákveðið að byggja hér upp. Eftir því sem fleiri Íslendingar eiga hærri upphæðir í lífeyrissjóði og geta fengið þær út um hver mánaðamót, þá minnkar vægi þessarar tillögu og þar af leiðandi mun kostnaður ríkissjóðs af þessari útfærslu minnka á komandi árum. Það gerist ekki hratt, það gerist mjög hægt vegna þess að fólkið sem á yfir 100 þús. kr. lífeyri fjölgar ekkert svakalega hratt á komandi árum, því fjölgar en það gerist kannski á næstu 25 árum eða svo. Ef þessar viðmiðunartölur haldast óbreyttar þýðir þetta að það verða færri sem njóta þessarar reglu, þ.e. smátt og smátt verður lífeyririnn meiri stoð í afkomu fólks en verið hefur.

Þegar við erum í hv. Alþingi að búa til texta og lagatexta, ég tala nú ekki um þegar við erum að útfæra eitthvert fyrirbæri eins og tryggingakerfi og samspil skatta og tekna, þá er þetta eilífum breytingum undirorpið á milli ára og áratuga í okkar þjóðfélagi. Þess vegna er það svo að þótt við séum hér að leggja til tillögur sem við höldum að geti verið til mikilla bóta sem afkomutrygging og lágmarkslífeyrisafkoma fyrir eldri borgara, þá munu þær tillögur auðvitað þurfa endurskoðunar við á komandi árum þó að þær yrðu samþykktar.

Ég held að rétt sé að vekja í lokin aðeins athygli á því, hæstv. forseti, sem komið var inn á í umræðunni, að það er ákaflega skrýtin regla sem er í gildi í skerðingarákvæðiskerfinu. Það er þegar öryrkjar verða eldri borgarar. Dæmi er um það sem ég hygg að margir þingmenn hafi undir höndum og var nefnt af hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur áðan. Hægt er að sýna fram á það með dæmi núlifandi konu sem hefur m.a. verið í fjölmiðlum að kynna það, að tekjur hennar eftir að hún varð löggildur ellilífeyrisþegi í júlí sl. lækkuðu um 30 þús. kr. á mánuði. Þannig virkar það. Hún var öryrki að hluta til en stundar atvinnu á vinnumarkaðnum og svona virkaði þessi útfærsla fyrir hana. Ég hef líka vakið máls á því að ef fólk vill auka tekjur sínar af því það hefur ekki nægilegar tekjur samanlagt til afkomu sinnar úr almannatryggingum og úr lífeyrissjóði, og vill auka tekjur sínar á vinnumarkaði, þá gerist það á meðan að ellilífeyririnn eyðist, þessar 22 þús. kr. sem kallast grunnlífeyrir í dag. Skattbyrðin er þá með jaðarskattsáhrifum allt að 85% þangað til 22 þús. kr. eru horfnar. Til þess þarf auðvitað viðkomandi ellilífeyrisþegi að þéna a.m.k. yfir 50 þús. kr. á mánuði til þess að eyða 22 þús. kr. því þetta eyðist með 45% reglunni. En bara af atvinnutekjum. Það eru bara atvinnutekjur sem geta eytt grunnlífeyrinum. Aðrar tekjur, eins og fjármagnstekjur, eyða öllum hinum bótaflokkunum, þ.e. tekjutryggingunni, tekjutryggingaraukanum og heimilisuppbótinni en eyða ekki grunnlífeyrinum. Það gerist hins vegar ef fólk neyðist til að fara út á vinnumarkaðinn. Það er auðvitað ákaflega sárt hjá fólki sem langar til að vera á vinnumarkaði vegna félagslegra ástæðna eða einfaldlega vegna þess að það þarf þess til að komast af, ef það síðan horfir á það þegar það fær útborgað og skoðaðar eru samtengingar grunnlífeyris, tekjutryggingar, tryggingabótakerfis og skattkerfisins og þegar það er búið að greiða gjöld til síns stéttarfélags o.s.frv., þá eru eftir í umslaginu tæpar 1.600 kr. af hverjum 10 þús. kalli upp fyrir 50 þús. krónurnar meðan verið er að eyða grunnlífeyrinum. Þessi útfærsla er ákaflega letjandi fyrir fólk og ekki við því að búast að fólk sækist mikið eftir því að vera á vinnumarkaði meðan reglurnar eru svona útfærðar.

Ég vil því segja að lokum, hæstv. forseti, að mjög nauðsynlegt er að þessi mál séu rædd og skoðuð í samhengi í gegnum skattkerfið, að búið sé til dæmi þar sem farið er með fólk í gegnum skattkerfið og tryggingabótakerfið eftir því hvort það hefur atvinnutekjur, lífeyristekjur eða fjármagnstekjur. Fjármagnstekjurnar skerða að hálfu, deilt er í með tveimur áður en þær skerðast. Þetta er svona í meginatriðum reglurnar að því er varðar þessi skerðingarákvæði. Ég held því að það væri afar nauðsynlegt fyrir okkur í hv. Alþingi að lagfæra stöðu eldri borgara og ég tel að við getum það með skynsamlegum vinnubrögðum.