132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[19:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér ræðum við mikið framfaramál, ekki einungis fyrir landsbyggðina heldur fyrir þjóðina. Jarðgöng eru framtíðin og þegar verið er að leggja drög að framtíðarmannvirkjum, samgöngumannvirkjum, er vert að skoða heildardæmið eins og við í Frjálslynda flokknum höfum gert, sjá hvað þetta er stór framkvæmd og hvað hún kostar. Okkur telst til að ef við ætlum að framkvæma þessa áætlun á 20 árum þá séu þetta kannski 1,5 milljarðar á ári og það er engin ofrausn að leggja í þann kostnað til þess að gerbreyta samgöngukerfinu. Það er einmitt mjög mikilvægt að hafa heildarsýn yfir það verkefni sem þarf að leysa. Það hefur sýnt sig að jarðgöng eru ekki einungis mikil samgöngubót heldur einnig mjög mikilvæg upp á öryggismál. Það þarf ekki að fjölyrða um það að jarðgöngin undir Hvalfjörð hafa sparað gríðarlega mikla peninga og einnig hafa þau skipt verulega miklu máli hvað varðar umferðaröryggi. Ég tel mjög mikilvægt að ræða þennan kostnað í sambandi við þessa jarðgangaáætlun. Þegar menn fara að skoða þetta mál þá átta þeir sig á því að þetta er skynsamlegt. Það þarf að ræða um samgöngumál, og sérstaklega jarðgöng, af meiri jákvæðni en gert hefur verið. Þetta eru í raun ekki nema 100 km samanlagt og mundi gerbreyta samgöngumálum víða um land.

Ég vil taka undir að þó að menn fari í þessi jarðgöng eiga þeir ekki endilega að kasta því alveg fyrir róða að bæta vegi yfir hálendið. Ég tel það mjög áhugavert sem hv. þm. Kjartan Ólafsson lagði til að skoða hagkvæmni þess að bæta Kjalveg. Hann er þá væntanlega að hafna leið hv. þm. Halldórs Blöndals um Stórasand, það væri fróðlegt að fá viðhorf hans til þeirrar framkvæmdar. Sú framkvæmd er mjög mikilvæg, ekki síður en jarðgöng vegna þess að það mundi skipta verulegu máli upp á ferðaþjónustuna.

Ég tel að í jarðgangaáætlun sem við höfum lagt fram séu jarðgöng á suðurfjörðum Vestfjarða mjög mikilvæg og þá ekki eingöngu út frá byggðasjónarmiðum. Ég tel að aðrir þættir skipti þar meira máli en einmitt þessi göng, það er aðgengi íbúa að náttúruauðlindum sem þeir hafa notað og nýtt um aldir en hafa skyndilega verið sviptir af kvótaflokkunum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki. Það er mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu að fara að nýta þessi gríðarlega fallegu svæði sem eru á Suðurfjörðum Vestfjarða, Látrabjarg, Vatnsfjörðinn og fleiri fallega staði, og ég er á því að þessi jarðgöng sem eru á suðurfjörðunum, um Arnarfjörð, Dýrafjörð og Dynjandisheiði, séu ekki síður og miklu frekar verðmæt fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Ég tel því að landsmenn allir eigi að líta með meiri jákvæðni en oft virðist gert til jarðgangagerðar vegna þess að þetta er einfaldlega framtíðin rétt eins og Sundabrautin. Þetta eru skynsamlegar framkvæmdir sem þjóðin á að sameinast um að fara í.