132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Láglendisvegir.

9. mál
[19:04]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða þótt ekki séu margir eftir í þingsalnum. En þeir sem verið hafa hér hafa tekið þátt í umræðunni og er það af hinu góða. Það hefur auðvitað margt borið á góma eins og alltaf þegar menn fara að ræða samgöngumál. Samgöngur skipta alla landsmenn verulegu máli og ekki er hægt að tala um framkvæmdir hér á landi sem einhver einangruð fyrirbæri sem miðist bara við einhverjar ákveðnar byggðir. Þegar við leysum alvarlegan samgönguvanda á varanlegan hátt, eins og með jarðgöngum, með þverun fjarða og styttingu vegalengda, erum við auðvitað að vinna þarft verk fyrir framtíð lands og þjóðar. Það á alveg jafnt við um það að byggja jarðgöng, þar sem það hentar best og verður til hagræðingar og öryggis í vegagerð, og það að leggja Sundabrautina. Ég tel Sundabrautina eitt af betri verkefnum í samgöngumálum. Hún getur þjónað landsmönnum í framtíðinni, ekki bara Reykvíkingum heldur öllum landsmönnum. Sama á auðvitað við um vegakerfið hvar sem það er. Batnandi samgöngur auka umferðaröryggi, þær stytta vegalengdir og efla byggðirnar, þær auðvelda samgöngur fólks milli svæða og breyta í raun og veru oft stöðu byggðanna. Ég þekki það vel af Vestfjörðum t.d.

Það hefur ýmislegt komið til umræðu og ég tók það fram í máli mínu að menn mættu ekki taka það svo að upptalningin í þingsályktunartillögu okkar séu tæmandi. Við erum ekki búnir að benda á allt það sem gera þarf hér á landi. Því fer auðvitað víðs fjarri eins og umræðan um Óshlíð og þann hættulega vegarkafla leiðir í ljós. Ég held að það sé einnig rétt að vekja athygli á því að nú nýlega kom í ljós í geysilegum úrkomukafla á Austur- og Suðausturlandi að vegir þar, t.d. um Þvottárskriður og Hvalnesskriður, geta hreinlega sópast burt í heilu lagi. Menn hljóta því að spyrja sig: Er eitthvert vit í því að treysta á þessa vegi til framtíðar? Ég held að svo sé ekki, ekki nema menn geti þá sýnt fram á að hægt sé að leggja þá þannig að þeir teljist öruggir. Þeir eru ekki öruggir í dag. Það er algerlega háð veðri og vindum og sérstaklega úrkomu.

Við skulum ekki gleyma því að vegagerðin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar var fyrst og fremst til þess ætluð að stytta vegalengdir en líka til að losna við hættulegan veg. Áherslur geta breyst á hverjum tíma og ég tel að það sé einboðið að menn skoði vandlega hvort vegirnir um Þvottárskriður og Hvalnesskriður séu þeir framtíðarvegir sem hægt er að una við. Ég endurtek það sem ég sagði fyrr í umræðunni að þessi upptalning í tillögunni okkar um varanlegar lausnir í vegamálum er ekki tæmandi og hún verður sjálfsagt ekki tæmandi. Við þurfum auðvitað alltaf að meta hlutina á hverjum tíma en samt er það svo að við þekkjum orðið erfiðustu fjallvegina okkar og við þekkjum hættulegustu vegina. Við þurfum auðvitað að setja þetta í ákveðna forgangsröð, út frá umferðaröryggi og út frá hagkvæmni ákveðinna framkvæmda, hvort sem það eru jarðgöng, þveranir fjarða eða lagfæringar á mjög hættulegum vegi. Ég tel að bestu lausnir sem við getum farið í miðað við aðstæður á Íslandi séu þær að koma vegunum inn í fjöllin ef það á annað borð er fært. Þar erum við laus við veðurfarið okkar og menn mega ekki gleyma því að þó að snjólétt hafi verið hér á landi undanfarin 2–3 ár þá er það engin ávísun á að hér verði snjólétt um alla framtíð. Fólk virðist vera búið að gleyma því að hér geti orðið mikil og erfið snjóalög.

Ég man vel eftir margra metra háum snjósköflum í byggð, jafnvel niður á láglendi eins og í Austur-Barðastrandarsýslunni og hálsarnir þar verða náttúrlega alveg kolófærir á slíkum snjóavetrum. Þó að þeir séu ekki háir sem fjallvegir þá er það staðreynd að þegar vetur verða erfiðir og mikil snjóalög þá eru margir fjallvegir ófærir vikunum saman. Menn voru stundum að moka stálið daglega og það var fullt aftur daginn eftir, margra metra há fönnin. Jarðgöng eru einn þátturinn í varanlegum vegabótum, alveg eins og að þvera firði og komast frá fjarðarbotnunum og fjallshlíðunum. Með úrbótum af þessu tagi erum við ekki eins háð snjóalögum og veðurfari.

Í jarðgangaáætluninni sem unnin var á árunum 1999 og lögð fram og rædd á Alþingi árið 2000 var forgangsraðað að hluta til. Gefnar voru forsendur og forsendurnar voru m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Meginröksemdir fyrir þessu vali eru þessar:

Seinni tvö verkefnin stækka atvinnu- og þjónustusvæði mikilvægra byggðakjarna á landsbyggðinni, þ.e. Mið-Austurlands og Eyjafjarðarsvæðis.“ — Þar var annars vegar um að ræða Siglufjörð – Ólafsfjörð og hins vegar Reyðarfjörð – Fáskrúðsfjörð sem þegar hafa verið gerð.

„Þessi sömu verkefni komast næst því að sýna arðsemi með hefðbundnum reikniaðferðum, þar sem um töluverðar styttingar vegalengda er að ræða.“ — Það var eitt atriðið.

„Öll verkefnin stytta vegalengdir milli þéttbýlisstaða verulega.“ — Það var annað atriði sem lagt var til grundvallar.

„Í öllum tilfellum þarf innan fárra ára að fjárfesta í vegabótum sem nýtast lítið ef jarðgöng koma síðar.“ — Það var annað atriði að menn væru ekki að lappa upp á vegi sem mundu ekki duga til framtíðar.

„Jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar eru skilyrði fyrir heilsárssamgöngum innan landshlutans.“ — Það vita allir landsmenn sem á annað borð hafa einhvern tíma komið til Vestfjarða að vegurinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar yfir Hrafnseyrarheiði eins og hann er í dag verður varla nokkurn tímann vetrarvegur. Þess vegna hafa menn valið að setja göng þar á milli.

Við nefnum hins vegar fleiri leiðir á Vestfjörðum í tillögu okkar. Við bendum t.d. á leiðina úr Fjarðarhornsdal í Kollafirði og yfir í Djúp. Ég held að sú leið verði mjög áhugaverður kostur þegar búið er að þvera Gufufjörð, Djúpafjörð og Þorskafjörð, ef af því verður. Þá er auðvitað búið að stytta vegalengdir geysilega mikið miðað við það sem nú er og þá kemur sú einkennilega staða upp að bundið slitlag verður á vegum á Barðaströndinni og í Ísafjarðardjúpinu beint á móti. Þar á milli eru svo tveir dalir, Fjarðarósdalur inn úr Kollafirði og Múladalur inn úr Ísafirði, og á milli þeirra er fjallvegur sem hefur verið kallaður Kollafjarðarheiði. Skip frá Breiðafirði sem gera átti út í Djúpinu voru reyndar dregin yfir hana í gamla daga en það er önnur saga. Þar væri hægt að gera tiltölulega stutt jarðgöng ef dalverpin væru notuð eins og mögulegt væri til beggja átta og þá væru menn komnir með samtengingu á láglendisvegi frá Ísafirði til Reykjavíkur. Þá væru menn sem sagt á láglendisvegi inn allt Djúp, gætu keyrt inn Múladalinn og síðan undir Kollafjarðarheiði og komið út í Kollafirði og væru þar af leiðandi á láglendisvegi alla leiðina til Reykjavíkur. Ég hef hingað til ekki kallað Svínadalinn hálendisveg og ef svo skyldi fara að nýr vegur á Bröttubrekku yrði ófær þá væri auðvitað hægt að fara Heydal og ef allt um þryti og menn þyrftu nauðsynlega að komast væri hægt að fara út fyrir Snæfellsnes. Þetta eru staðreyndir málsins og þess vegna hygg ég, hæstv. forseti, að þegar þessum vegarkafla á Vestfjörðum lýkur muni koma mjög sterk krafa þaðan um að tengja saman veginn úr Kollafirði yfir í Ísafjarðardjúp, enda mjög skynsamlegt að mínu viti að tengja þar saman með góðri vegagerð. Þá þyrftum við kannski ekki að vera að djöflast í því að moka Steingrímsfjarðarheiði yfir háveturinn og þyrftum ekki að aka hana frekar en við vildum ef hún væri akfær.

Það var minnst áðan á Hellisheiðina og ég sagði í inngangi mínum að þó við hefðum nefnt hana í tillögum okkar þá væri ekki lengur ástæða til þess því menn væru að hamast við að tvöfalda veginn þar og lagfæra hann. Ég geri ráð fyrir að menn haldi áfram að endurbæta hann á komandi árum þannig að hann verði tvöfaldur yfir heiðina beggja megin í brekkunum og menn komist með öruggum hætti leiðar sinnar. Ég hef hins vegar alltaf furðað mig á því, hæstv. forseti, að menn skuli aldrei hafa hugleitt að setja jarðhita í brekkurnar beggja megin í Hellisheiðinni með allan þann óhemjujarðhita sem er á þessu svæði. Ég hef satt að segja undrast að Vegagerðin skuli aldrei hafa skoðað hvort ekki sé hægt að nota þennan mikla jarðhita til að hita upp þessar tvær brekkur sem hættulegastar eru þannig að vegurinn verði nánast auður þar þó hann væri ekki upphitaður yfir heiðina sjálfa. En menn virðast ekki hafa hugleitt þetta. Ég furða mig reyndar á því og var svolítið undrandi á því í umræðunni áðan, þegar tveir hv. þingmenn úr Suðurkjördæmi ræddu þennan möguleika, að þeir skyldu ekki nefna að með allri þeirri orku sem er á þessu svæði ætti að vera auðvelt að leggja jarðhitalagnir í þennan veg, alla vega hættulegustu kaflana og bröttustu brekkurnar. Ég leyfi mér að vekja athygli á þessari hugmynd og það væri auðvitað fróðlegt ef það væri skoðað. Það mundi örugglega efla mjög umferðaröryggi á þeirri leið að hafa þessa kafla upphitaða. Það væri fróðlegt að gera tilraun með þetta á einhverjum kafla á Hellisheiðinni og sjá hvernig það kæmi út.

Hvað varðar styttingu leiða milli Norðurlands og Suðurlands yfir Kjöl, sem komið var inn á áðan, þá er það auðvitað þannig að það er búið að leggja þó nokkra fjármuni í það að byggja upp veginn yfir Kjöl á undanförnum árum og áratugum og það er sjálfsagt alveg rétt hjá hv. þingmanni sem vék að þessu áðan að kostnaður við að leggja varanlegan uppbyggðan veg yfir Kjöl er miklu minni heldur en að gera einhvern annan hálendisveg. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður hefur fyrir sér þegar hann nefnir 3 milljarða en ég gæti vel trúað því að það væri nokkuð nærri lagi því það er búið að lagfæra Kjalveg talsvert mikið. Ég tel það alls ekki fráleitan kost þegar menn hugsa til framtíðar varðandi vegtengingar milli Norður- og Suðurlands að þessu leyti.

Hæstv. forseti. Það hefur stundum verið talað um að menn þyrftu að leggja mat á hægðarauka og sparnað o.s.frv. Ég hef alltaf talið að það væri hlutverk Vegagerðarinnar að reikna út þær hugmyndir sem menn eru með í vegagerð og við erum með þessa gömlu jarðgangaáætlun frá árinu 1999. Hún var kynnt hér á þingi 2000. Síðan vill svo til að sveitarstjórnirnar í Reykhólahreppi, á Tálknafirði og í Vesturbyggð létu vinna sérstaka skýrslu í sumar, m.a. um samlegðaráhrif af vegagerð á Vestfjörðum og tengingu með jarðgöngum o.s.frv. Það er auðvitað svolítið skrýtið ef hvert sveitarfélag þarf að fara að gera arðsemisútreikninga fyrir ákveðnar vegaframkvæmdir. Mér finnst að Vegagerðin eigi að gera það og hún hlýtur að hafa marktækustu upplýsingarnar um umferðarslys, umferðarkostnað, umferðaröryggi og alla möguleika um kostnað við að leggja nýja vegi, þvera firði og gera jarðgöng. Það á að vera hennar hlutverk að leggja mat á þetta og það er það sem tillaga okkar gengur út á.