132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar.

[13:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra og fleiri ráðherrum í ríkisstjórninni verður það gjarnan fyrir þegar rætt er við þá um alvarlegt ástand í efnahagsmálum að bera fyrir sig að hér sé allt í himnalagi og vitna til rökstuðnings í einkunnagjöf alþjóðastofnana. Þetta gerði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni og í umræðum hér fyrir helgi um tillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

Nú vill svo til að við höfum í höndum glænýja skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en það er einmitt ein af þessum stofnunum sem ríkisstjórnin vitnar í gjarnan um það hvað allt sé hér gott og í góðu lagi. En þar segir m.a., með leyfi forseta:

„The staff advised that the tax cuts planned for 2006 and beyond be postponed until it was clear that excess demand conditions had dissipated fully.”

Sem sagt, sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins leggja til að skattalækkunum áformuðum strax fyrir árið 2006 og þeim sem á eftir koma, þ.e. 2007, verði slegið á frest þar til þenslunni lýkur og þeir telja að skattalækkanirnar muni auka á ofhitun hagkerfisins, ekki síst í ljósi mikils aðgangs að ódýru fjármagni. Í skýrslu OECD sem kom í aprílmánuði sl. kveður við sama tón. Þar segir, með leyfi forseta:

„However, in the current economic context, the tax cuts are ill-timed ...”

Sem sagt, tímasetning skattalækkananna er illa valin í ljósi efnahagsaðstæðna hér á landi. Þessar tvær alþjóðastofnanir sem hæstv. ríkisstjórn vitnar gjarnan í máli sínu til stuðnings leggja til við ríkisstjórnina aðgerðir til að reyna að endurheimta hér efnahagslegan stöðugleika. Báðar fókusera á illa tímasettar eða rangar skattalækkanir við núverandi aðstæður. Ætlar ríkisstjórnin að vera sjálfri sér samkvæm og gera eitthvað með ráðleggingar þessara stofnana (Forseti hringir.) þegar þær leggja til breytingar eða bara þegar ríkisstjórninni er hrósað?