132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar.

[13:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað ekki sérstaklega uppörvandi að heyra hæstv. ráðherra koma hér og játa það beinlínis með framgöngu sinni að viðhorf þeirra til alþjóðastofnana sé það að það hentar að vitna í þær þegar ríkisstjórninni er hrósað en síðan er ekkert gert með varnaðarorð og ráðleggingar þegar það hentar ekki ríkisstjórninni hér heima fyrir. Þá er þetta allt saman misskilningur og vitleysa, menn hafa ekki áttað sig á tímasetningum o.s.frv. Það er greinilegt að ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að allir aðrir misskilji ástandið. Seðlabankinn misskilur þetta botnlaust. Aðilar vinnumarkaðarins eru úti að aka. Greiningardeildir bankanna vita ekkert hvað þær eru að tala um. Alþjóðastofnanir eru í tómu rugli þegar þær hvetja ríkisstjórnina til að falla frá skattalækkunum og draga úr stórframkvæmdum.

Það þarf dálítið til, frú forseti, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem er forritaður samkvæmt prógrammi nýfrjálshyggjunnar leggi til að fresta skattalækkunum. Það þarf nefnilega dálítið til að þessar stofnanir sem meira og minna ganga allar fyrir lögmálum nýfrjálshyggjunnar í efnahagsmálum telji ástandið svo alvarlegt að þær leggi til hluti af þessu tagi, bæði Efnahags- og framfarastofnunin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. En ríkisstjórnin ætlar að sjálfsögðu ekkert að gera með það. Og hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta sé allt saman í lagi vegna þess að þungi stóriðjuframkvæmdanna hafi færst fram. En hvað er hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í sömu ríkisstjórn og fjármálaráðherra — eða hún var það a.m.k. þangað til fjárlagafrumvarpið var lagt fram að ég held — að gera? Hún ríður um landið og býður álver hér og álver þar ofan í það sem nú er í gangi, í Helguvík, á Norðurlandi, stækkun í Hvalfirði, stækkun í Straumsvík. Veit Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kannski af því?

Svo er eitt enn, frú forseti, sem þarf að ræða við hentugt tækifæri, sá djúpstæði ágreiningur sem birtist í skýrslunni þegar sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vitna annars vegar í Seðlabankann og fleiri aðila sem þeir hafa rætt við og hins vegar í ríkisstjórnina. Þeir draga fram í dagsljósið hversu (Forseti hringir.) djúpstæður ágreiningur er um stöðu efnahagsmála á Íslandi þar sem ríkisstjórnin rær ein á báti móti straumnum.