132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[13:45]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Frumvarp það sem ég mæli fyrir felur ekki í sér veigamiklar breytingar á lögum um úrvinnslugjald en þær eru engu að síður mikilvægar til að tryggja að rekstur úrvinnslugjaldskerfisins gangi vel og greiðlega fyrir sig. Úrvinnslugjaldslögin eru einnig gamall kunningi hv. Alþingis en gera þarf breytingar á þeim reglulega eins og ljóst var frá upphafi. Þrjár meginbreytingar eru lagðar til:

Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra verði heimilt með reglugerð að setja sérstakar reiknireglur um greiðslu úrvinnslugjalds vegna pappa, pappírs og plastumbúða. Þessar reiknireglur geta innflytjendur nýtt sér þegar þeir hafa ekki nákvæmar upplýsingar um magn umbúða utan um vöru en meginregla laga um úrvinnslugjald gerir ráð fyrir að innflytjandi vöru viti hversu mikið af umbúðum eru utan um þá vöru sem hann flytur til landsins og að hann greiði úrvinnslugjald í samræmi við þær upplýsingar.

Framangreindar reiknireglur gefa upp prósentutölu fyrir annars vegar pappa- og pappírsumbúðir og hins vegar plastumbúðir vegna ákveðinna vara og er notast við númerakerfi tollskrárinnar. Gert er ráð fyrir að innflytjandi geti flett upp tollskrárnúmeri fyrir þá vöru sem hann er að flytja inn og greiði þá úrvinnslugjald í samræmi við það. Til nánari skýringa má taka raunhæft dæmi um innflytjanda sem ætlar að flytja inn tíu örbylgjuofna sem eru samtals 100 kg að þyngd. Innflytjandi getur þá flett upp tollskrárnúmeri örbylgjuofna og samkvæmt tillögum sem verið er að vinna að hjá Úrvinnslusjóði ætti hann að greiða úrvinnslugjald miðað við það að 8% af heildarþyngdinni séu vegna pappa- og pappírsumbúða og 3% séu vegna plastumbúða. Samkvæmt gildandi lögum á að greiða 10 kr. af hverju kíló af innfluttum pappa, pappírs- og plastumbúðum. Af 100 kg af örbylgjuofnum þyrfti innflytjandi því að greiða 80 kr. vegna pappa og pappírsumbúða og 30 kr. vegna plastumbúða, í heild 110 kr. úrvinnslugjald. Úrvinnslugjaldið vegna pappa, pappírs- og plastumbúða á hvern örbylgjuofn yrði því um 11 kr.

Verið er að leggja lokahönd á tillögu að slíkum prósentutölum hjá Úrvinnslusjóði en sjóðurinn vinnur tillögur sínar á grunni upplýsinga sem hann hefur fengið frá danska fyrirtækinu Logisys sem sérhæfir sig í að reikna út meðalþyngd umbúða utan um vöru. Úrvinnslusjóður sendir tillögur þessar til afgreiðslu umhverfisráðherra verði þetta frumvarp til breytinga á lögunum samþykkt.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að meginreglan er og verður sú að innflytjendur eiga að fá upplýsingar um hversu þungar umbúðirnar eru og greiða í samræmi við það. Ætla má að með tímanum verði greitt samkvæmt þeirri reglu í flestum tilvikum. Hins vegar tekur nokkurn tíma fyrir fyrirtæki að afla slíkra upplýsinga og í sumum tilvikum gæti það orðið mjög erfitt og jafnvel ómögulegt að nálgast þær. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fyrirtækjum verði heimilt að greiða úrvinnslugjald með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Vert er að taka fram að sátt er um þetta mál, enda hefur verið unnið að því í samráði við hagsmunaaðila, jafnt samtök innflytjenda og þá sem þurfa að færa þessar tillögur inn í tollafgreiðslukerfið.

Hvað varðar innlenda framleiðslu má gera ráð fyrir að sá sem framleiðir vöru viti ætíð hversu mikið af umbúðum eru utan um hana og greiði hann því í samræmi við fyrrnefnda meginreglu um raunverulega þyngd umbúða.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á reglum um niðurfellingu og endurgreiðslu úrvinnslugjalds. Lagt er til að sett verði sérstakt ákvæði sem heimilar að fyrirtæki fái undanþágu frá því að greiða úrvinnslugjald af svokölluðum hreinum umbúðum þegar fyrir liggur við innflutning að þær verði notaðar utan um afurðir sem síðan verða fluttar úr landi. Dæmi um slíkar umbúðir eru pappakassar sem ætlaðir eru utan um íslenskan fisk sem síðan er seldur úr landi. Í stað þess að sækja þurfi sérstaklega um endurgreiðslu í slíkum tilfellum er í b-lið 1. gr. frumvarpsins lagt til að nánar tilgreindir vöruflokkar pappa, pappírs- og plastumbúða verði undanþegnir úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að því sé lýst yfir að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og ekki komi til úrvinnslu hennar hér á landi. Með þessu er komið til móts við hagsmuni útflutningsatvinnuveganna, til að mynda fiskútflytjenda.

Að mati framleiðenda og innflytjenda umbúða má gera ráð fyrir að um 75–80% pappa- og pappírsumbúða sem settar eru á íslenskan markað fari til notkunar utan um framleiðslu til útflutnings. Stór hluti plastumbúða fer sömu leið. Tekið skal fram að sömu reglur munu gilda um innlenda framleiðslu, þ.e. innlendir framleiðendur þurfa ekki ef tillögur þessar ná fram að ganga að greiða úrvinnslugjald vegna umbúða sem fara til notkunar utan um framleiðslu þegar fyrir liggur að varan verði flutt úr landi.

Þau tilvik geta einnig komið upp að ekki sé ljóst þegar umbúðir eru fluttar inn eða þær eru framleiddar hérlendis hvort þær verða notaðar innan lands eða til útflutnings. Samkvæmt gildandi lögum er það Úrvinnslusjóðs að endurgreiða úrvinnslugjaldið ef aðili getur sýnt fram á að hann hafi greitt af umbúðunum en síðan hafi þær verið fluttar úr landi.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á þessari reglu þannig að skattstjórar sjá um endurgreiðslu úrvinnslugjalds í stað Úrvinnslusjóðs áður. Byggist þessi tillaga á þeirri staðreynd að í dag er lítið um að úrvinnslugjald sé endurgreitt en gera má ráð fyrir að eftir að úrvinnslugjald verður lagt á umbúðir muni endurgreiðslur aukast stórlega. Mitt mat sem byggt er á samráði við hagsmunaaðila er að skattstjórar séu réttu aðilarnir til að sjá um slíkar endurgreiðslur.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lögð til þriðjungslækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða svo að úrvinnslugjald sem áður var t.d. 30 kr. vegna hjólbarða undir venjulega heimilisbíla verði 20 kr. Þessi lækkun nemur um 72 millj. kr. á ári miðað við núverandi umsvif. Úrvinnslusjóður fer reglulega yfir þær forsendur sem hann gefur sér um upphæð úrvinnslugjalds á einstaka gjaldaflokka. Komið hefur í ljós að mun meira hefur verið flutt inn af hjólbörðum en útreikningar Úrvinnslusjóðs gerðu ráð fyrir og er það aðallega vegna þess að innflutningur á bílum er umfram spár. Nái þessi tillaga fram að ganga má gera ráð fyrir að úrvinnslugjald á hjólbarða nái jafnvægi á um fjórum árum.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.