132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað mun umhverfisnefnd Alþingis senda málið til umfjöllunar hjá frjálsum félagasamtökum en það er ekki ásættanlegt að þau félagasamtök sem starfa á sviði umhverfismála skuli ekki fá að koma að málum meðan verið er að semja þau á sama hátt og hagsmunaaðilar í atvinnulífinu fá. Það er á því stigi sem málið er á borði ráðherra, meðan það er í samningu, sem umhverfissamtökin eiga að koma að borðinu. Ég skil ekki tregðuna í að hleypa þeim þangað. Auðvitað koma þau til með að gefa umsagnir um málið og þau telja sér það ljúft og skylt, veit ég, og þau koma til með að senda okkur umsagnir. En það er ekki á því stigi sem við erum að sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið og þá aðkomu sem þau eiga skilið samkvæmt þeim alþjóðlegu samningum sem við höfum undirritað eins og Árósasamninginn sem ég nefndi áðan.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu, að hann fagnar því með roða í vöngum hve mikið við fáum af afgjaldi inn í Úrvinnslusjóðinn vegna þess að verið er að flytja inn svo mikið af dekkjum undir búkollurnar sem eru að eyðileggja náttúruna okkar á hálendinu norðan Vatnajökuls. Auðvitað fær hv. þingmaður mig ekki til að fagna því. Ef hv. þingmaður er að reyna að æsa og espa mig upp í ræðu gegn Kárahnjúkavirkjun þá er ég til í að taka þann slag hvenær sem er. En ég ítreka það sem ég sagði áðan. Það er til skammar allur þessi innflutningur á hjólbörðum hvort sem það er undir búkollur eða einkabíla, annars konar búkollur. Það er ekki eðlilegt að þjóð á borð við okkur sé að sprengja allar áætlanir ár eftir ár varðandi innflutning á bifreiðum, þá er eitthvað að. Og það sem er að er að við erum að hunsa almenningssamgöngur, við erum ekki að nýta þær sem skyldi, við erum ekki að greiða götu þeirra sem skyldi, við erum ekki að búa til umhverfisvæna pólitík á þann hátt sem við ættum að vera að gera.