132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:16]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágæta umræðu og tek undir með þeim að það skiptir auðvitað mjög miklu í þessu efni öllu að kerfið sé einfalt og skilvirkt þannig að það þjóni sem best þeim sem við það þurfa að búa.

Hv. þingmenn Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir nefndu sérstaklega dagblaðapappírinn. Ég á afskaplega auðvelt með að skilja að sveitarfélögin vilji, ef horft er frá þeirra sjónarhorni, koma þessum hluta úrgangsmálanna sem hjá þeim er undir Úrvinnslusjóð en ég tel það ekkert endilega sjálfsagt. Það eru mál sem þarf að skoða. Því hefur verið þannig fyrir komið að þessi þáttur er hlutverk sveitarfélaganna í förgunarmálum en hvort einhverjar breytingar ættu að verða á því þarf alveg sérstaka umræðu og skoðun. Það er ljóst að kerfið sem við höfum byggt upp gengur ágætlega og get ég mjög vel séð það fyrir mér að ef ég væri í sporum sveitarstjórnarmanns þætti mér kannski ekki slæmt að geta horft til þess að komast yfir fjármuni til förgunarmála á þann hátt að leggja á úrvinnslugjald. En ég ítreka að það er ekki endilega sjálfsagt. Það þarf að skoða það í samhengi við þessi mál öll til framtíðar litið.

Hvað varðar stjórn Úrvinnslusjóðs sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á áðan þá lýsi ég þeirri skoðun minni að ég tel að ekki eigi að fjölga í þeirri stjórn. Það kæmi frekar til greina að fækka ef gera ætti einhverjar breytingar. Ég veit að nefndin mun að sjálfsögðu fara vandlega yfir þau mál en þetta er ekki hluti af því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég nefni þetta af því að ég hef mjög ákveðna afstöðu í þessum efnum og vildi bregðast við því.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór nokkrum orðum um að frjáls félagasamtök ættu að eiga aðild að undirbúningi máls eins og þess sem hér liggur fyrir. Mér fannst gæta heilmikils misskilnings í málflutningi hennar. Í þessu máli er í raun og veru verið að skipa verkefnisstjórn til að fara ofan í mjög tæknilegt mál og ég vek athygli á því að umhverfisráðuneytið var ekki með fulltrúa í verkefnisstjórninni. Þetta er eingöngu tæknilegt mál til að auðvelda framkvæmd á máli sem búið er að taka ákvörðun um og þannig stendur þetta tiltekna mál.

Loks vil ég líka árétta að úrvinnslugjaldinu er eingöngu ætlað að standa undir kostnaði við úrvinnslu og því þurfum við að skoða árlega þær upphæðir sem lagðar er á og það er m.a. þess vegna sem lagt er fram frumvarp á hverju einasta ári þegar breyta þarf upphæðinni.

Einnig var komið inn á landsáætlanir í förgunarmálum sem eru mjög til framfara. Ég legg áherslu á að þessi mál þurfa að vera í sem allra besta lagi og að kerfið þarf að vera eins einfalt og skilvirkt og kostur er.