132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. umhverfisráðherra segir að það sé ekki endilega sjálfgefið að sínu mati að dagblaðapappírinn fari inn í þetta úrvinnslusjóðskerfi. Ég er ósammála henni í þeim efnum og vil minna hæstv. ráðherra á að umhverfisnefnd gaf út yfirlýsingu í nefndaráliti fyrir sennilega tveimur árum síðan við vinnslu á frumvarpi er varðaði Úrvinnslusjóð og úrvinnslugjald. Nú ber þetta svo brátt að að ég man ekki nákvæmlega hvaða nefndarálit þetta var en ég á sennilega auðvelt með að finna það. En sú umhverfisnefnd sem þá starfaði gaf yfirlýsingu um að hún teldi nauðsynlegt að flýta vinnu við að koma dagblaðapappír undir sama kerfi. Ég bendi því hæstv. umhverfisráðherra á að hér talar hún þvert ofan í vilja umhverfisnefndar sem sat fyrir tveimur árum. Ég þori að fullyrða að það sé mjög mikill vilji hjá þeirri umhverfisnefnd sem núna starfar fyrir því að koma dagblöðunum undir þetta kerfi. Ég get ekki fullyrt að það sé meiri hluti en það mál verður örugglega tekið upp á fundum nefndarinnar þegar frumvarpið fer þangað til umfjöllunar.

Hæstv. ráðherra segir að það sé misskilningur minn að fólk frá frjálsum félagasamtökum þurfi að koma að undirbúningi þessa máls af því að það sé svo tæknilegt og flókið. Frú forseti. Ég tel að félagasamtök sem starfa á sviði umhverfisnefndar eigi það skilið að vera kölluð til, frekar oftar en sjaldnar, þegar umhverfisráðherra þarf að skipa verkefnisstjórnir í nákvæmlega svona málum því að innan vébanda umhverfisverndarsamtaka er fólk sem er faglega mjög vel að sér í öllum málum er lúta að umhverfisvernd og þess vegna líka sorpflokkun og förgun úrgangs. Umhverfisverndarsamtökum væri sýnd tilhlýðileg virðing ef hæstv. umhverfisráðherra boðaði þau til þegar verið er að semja mál af þessu tagi.