132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[14:29]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Frumvarpið er í meginatriðum samið af starfshópi sem umhverfisráðherra skipaði í júní 2003 til að gera tillögur um með hvaða hætti binda mætti leyfi um töku efna úr gömlum námum. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi síðasta vetur en náði ekki fram að ganga.

Samkvæmt gildandi lögum skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar fyrir allri efnistöku á landi og úr hafsbotni innan netlaga. Þetta gildir um allar námur þar sem efnistaka hófst eftir gildistöku náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, þ.e. eftir 1. júlí 1999. Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, ná einnig til slíkrar efnistöku ef hún nær tilteknu umfangi eða er á náttúruverndarsvæðum. Um öll ný efnistökusvæði gilda því ákveðnar reglur sem tryggja að sveitarstjórnir og önnur stjórnvöld á borð við Umhverfisstofnun geti haft áhrif á hvernig efnistakan fer fram.

Hins vegar hefur verið talið að framangreind ákvæði nái ekki til eldri efnistökusvæða, þ.e. þar sem efnistaka var hafin fyrir 1. júlí 1999. Þar sem mikill meiri hluti allra náma í landinu fellur undir þann flokk hefur ekki tekist að koma eðlilegu eftirliti á stóran hluta þeirra efnisnáma sem í landinu eru. Til að taka af allan vafa er í frumvarpinu sem ég mæli fyrir lagt til að skýrt verði kveðið á um að um eldri námur gildi sömu reglur og um nýjar. Er gert ráð fyrir að þetta verði gert í tveimur áföngum. Tilgangurinn með frumvarpinu er ekki að koma í veg fyrir efnistökuna heldur fyrst og fremst að tryggja virkt eftirlit af hálfu náttúruverndaryfirvalda og vönduð vinnubrögð svo að efnistakan fari fram eins og kostur er í sátt við umhverfið og einnig að frágangur náma þegar efnistöku lýkur verði með samræmdum hætti hvort sem um er að ræða gamlar eða nýjar námur.

Í frumvarpinu er í fyrsta áfanga lagt til að eftir 1. júlí 2008 þurfi framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar fyrir efnistöku í eldri námum þegar eitt af eftirfarandi skilyrðum eigi við:

1. Þegar áætluð er stækkun efnistökusvæðis um 25 þúsund fermetra eða meira.

2. Þegar áætlað er að taka 50 þúsund rúmmetra af efni eða meira á viðkomandi efnistökusvæði.

3. Þegar áætluð er samanlögð stækkun tveggja eða fleiri efnistökustaða vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði, um 25 þúsund fermetra eða meira.

4. Þegar efnistaka fer fram á verndarsvæði.

Gert er ráð fyrir að lög um mat á umhverfisáhrifum taki einnig til þessara náma eins og um nýja framkvæmd væri að ræða. Það þýðir í flestum tilfellum að tilkynna ber efnistökuna til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um hvort hún skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Allra stærstu námurnar í þessum flokki verða hins vegar sjálfkrafa matsskyldar, þ.e. þar sem fyrirhuguð er stækkun efnistökusvæðis um 50 þúsund fermetra eða meira eða þar sem fyrirhugað er að teknir verði yfir 150 þúsund rúmmetrar af efni.

Í öðrum áfanga frumvarpsins er síðan gert ráð fyrir að eftir 1. júlí 2012 þurfi allar starfandi námur framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Eftir þann tíma eiga því sömu reglur að gilda um allar námur í landinu og framkvæmdin á efnistöku með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum að verða samræmd.

Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.