132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[14:34]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum og snýr frumvarpið að þáttum laganna sem varða eldri námur eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Þetta mál kom fram á síðasta þingi en var ekki afgreitt. Þá settum við í Samfylkingunni fram nokkrar spurningar hvað þetta varðar.

Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið inn í þingið og tel mjög mikilvægt að settar verði ákveðnar reglur um námur og lög verði sett um þær. Ég veit að hagsmunaaðilar hafa kallað eftir slíkri lagasetningu, svo sem Landvernd og náttúruverndarsamtök.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er gert ráð fyrir að efnistaka verði óheimil eftir 1. júlí 2008. Í frumvarpinu sem kom fram á síðasta þingi var miðað við árið 2007. Hér er verið að fresta þeirri gildistöku um eitt ár og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé ástæða til að hraða þessari lagasetningu og gildistöku og halda sig við þá dagsetningu sem var í frumvarpinu á síðasta vetri. Sama á við um gildistöku á framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku á svæðum þar sem efnistaka var hafin fyrir 1. júlí 1999. Í fyrra var gert ráð fyrir að það tæki gildi 2010 en nú er miðað við árið 2012, gildistökunni er frestað um tvö ár. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé hægt að halda sig við dagsetningarnar sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi.

Ég hef gert malarnám og námur að umtalsefni. Fyrir nokkrum árum, þegar ég átti sæti í umhverfisnefnd, var töluvert fjallað um Seyðishólana. Þar voru ákveðnar náttúrumyndanir sem voru nánast eyðilagðar af malarnámi og ég fagna því sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu að lagasetning sé á næsta leiti. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram niðurstaða starfshópsins sem undirbjó þetta frumvarp, en í júní 2003 skipaði umhverfisráðherra starfshóp sem vann þetta verk. Í greinargerðinni koma fram margar gagnlegar upplýsingar um stöðu mála, m.a. rak ég augun í það, sem ég vissi ekki áður, að um 8 millj. rúmmetra eru notaðar á hverju ári af jarðefnum og þar af fara um 60% til vegagerðar. Síðan er vitnað í námuskrá Vegagerðarinnar og þar eru skráðar núna 3.040 námur og eru um 55% af þeim eða 1.658 námur skráðar ófrágengnar. Eru þetta óbreyttar tölur? Hefur námum ekkert fjölgað frá því í fyrra því þetta eru sömu tölur og komu fram með frumvarpinu í fyrra. Hefur þetta ekkert breyst?

Eftir því sem mér heyrðist á hæstv. ráðherra, hún ítrekar það þá kannski bara í seini ræðu sinni, mun þetta frumvarp ná til allra þessara náma. Munu þá verða komin lög yfir allar námur þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum? Í niðurstöðu starfshópsins er vakin athygli á því að mörgum náttúrufyrirbrigðum hafi verið spillt með námum og það verður ekki aftur tekið. Við vitum að efnistaka skilur víða eftir sig mjög ljót sár í umhverfinu og þeim sárum þarf að fækka og koma í veg fyrir. Þess vegna er lögð mikil áhersla á að frágangur verði vandaður þar sem efnistaka hefur farið fram.

Nú stendur fyrir dyrum að umhverfisnefnd fari og skoði námur og þá sérstaklega námur hér í nágrenninu. Ég tel að það verði fróðlegt fyrir nefndina, þar sem við þurfum að vinna þetta þingmál, að kynna sér þær námur sem eru í nágrenninu og ekki síst í ljósi þess hve gífurlega margar námur eru hér.

Mig langar til að nefna eitt atriði sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins og það er um efnistöku á verndarsvæðum. Þar er gert ráð fyrir viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum þar sem nám fer fram á verndarsvæðum. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að banna nám á friðlýstum svæðum eða á svæðum sem er áformað að friðlýsa.

Ég held að ég geri ekki frekari athugasemdir við þetta mál. Ég á sæti í umhverfisnefnd og við munum fara yfir þetta en ég fagna því að lög verði sett um malarnám. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er ekki gert ráð fyrir að þetta komi í veg fyrir malarnám en að settar verði ákveðnar reglur um umgengni við námur og einnig reglur um eldri námur og frekara malarnám í þeim. En ég mun koma að þessu máli í nefndinni og vænti þess að þar komi frekar fram athugasemdir frá þeim sem málið varðar. Ég tek eftir því að í starfshópnum hefur þess verið gætt að sem flestir komi þar að, bæði þeir sem starfa við námurnar og einnig náttúruverndaraðilar og aðrir hagsmunaaðilar. Mér sýnist að þar hafi vel verið staðið að verki.