132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[15:29]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni hið merkasta mál sem er hluti af málaröð frá hinum ýmsu þingmönnum Samfylkingarinnar, sem fjallar um og tekur til stjórnfestu, opnari stjórnsýslu og heilbrigðara lýðræðis. Má nefna mörg dæmi í því sem tengjast beint umræðunni um póltískar ráðningar eins og þingmálið um skipun hæstaréttardómara, ráðningu í slíkar stöður, og hér hafa verið nefnd fleiri ágæt dæmi.

Það sem stendur upp úr er að almenningur á Íslandi hefur mjög sterkt á tilfinningunni að mjög margar og flestar ráðningar eins og hér um ræðir, skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins, séu meira og minna rammpólitískar þar sem flokksgæðingum hvers konar er raðað á jötuna á kostnað faglegra ráðninga. Margar mjög umdeildar ráðningar hafa átt sé stað á liðnum árum svo notað sé hófstillt orðalag yfir það. Að mínu mati er almennt vantraust og neikvætt viðhorf til slíkra ráðninga vegna yfirgangs framkvæmdarvaldsins við slíkar ráðningar, freklegra pólitískra ráðninga sem hafa einmitt náð til skipunar hæstaréttardómara eins og skipun hæstaréttardómaranna Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar eru gleggstu dæmin um. Þar held ég að hægt sé að fullyrða að hafi verið nokkuð viðtekin viðhorf mjög margra að um hafi verið að ræða pólitískar skipanir í sjálfan Hæstarétt á kostnað faglegra skipana og eðlilegra stjórnarhátta.

Málin sem taka til þessara hluta þurfa að vera nokkuð mörg og hér er eitt af þeim sem tekur á skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins. Raktar eru nokkrar ágætar leiðir sem farnar eru annars staðar við að skipa ráðuneytisstjóra og embættismenn stjórnarráða því það er alveg á hreinu að það er mjög mikilvægt að um sé að ræða mjög greinilega pólitíska forustu í ráðuneytunum líka. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það. Þegar nýir ráðherrar koma til starfa í ráðuneytum sínum eiga þeir að sjálfsögðu að geta tekið með sér menn sem þeir treysta til að vera pólitískir samherjar sínir og samstarfsmenn innan ráðuneytanna. Eins og hér er vísað er til hófst það að hluta til þegar ráðherrar fengu heimild til að ráða aðstoðarmenn sem var bæði sjálfsögð og góð breyting. En það sem eftir stendur er að ráðuneytisstjórar voru áfram í flestum tilfellum skipaðir pólitískt þó svo að heimild væri til að ráða pólitíska aðstoðarmenn og það er það sem þetta mál tekur á.

Það er fráleitt að því sé svo fyrir komið og er klárlega á kostnað faglegra vinnubragða og faglegra skipana að verið er að skipa pólitíska forustu ofan á pólitíska forustu og aðstoð við ráðherrana í ráðuneytunum. Þá víkja faglegu sjónarmiðin fyrir þeim pólitísku og það er slæmt og alvarlegt og á því tekur þetta mál. Dæmi um það hafa verið rakin í umræðunni nú þegar, eins og ég nefndi áðan um skipun hæstaréttardómara þar sem sannfæring mjög margra var að þar væri verið að skipa pólitíska vildarvini og flokksgæðinga Sjálfstæðisflokksins beint inn í Hæstarétt sjálfan og þar með verið að varpa skugga á hæfi hans og hlutleysi til að taka á hinum ýmsu málum. Búið er að veikja Hæstarétt Íslands verulega með þeim ráðningum og skapa mjög útbreitt vantraust á þessum æðsta rétti okkar í lögum og rétti í landinu. Það er mjög slæmt og alvarlegt mál sem þarf líka að taka á og tengist þessu máli að því leyti að þar er um að ræða pólitískar skipanir, pólitískan yfirgang við Hæstarétt Íslands á kostnað faglegra sjónarmiða.

Hv. 1. flutningsmaður málsins, Rannveig Guðmundsdóttir, rakti þrjár leiðir sem birtust í grein í Morgunblaðinu 11. sept. 2004, eins og hér kemur fram, þar sem skilin á milli pólitískrar forustu og faglegrar eru skýr. Allar leiðirnar koma að sjálfsögðu til greina og eru lagðar hér til grundvallar í málinu fyrir þingnefnd að skoða og koma með tillögur um verði þessi ágæta þingsályktunartillaga samþykkt. Þær leiðir voru raktar áðan.

Fyrsta leiðin er sú sem mér hugnast best persónulega og er mitt mat að gæfist ágætlega. Þó að þær komi allar til greina og geti örugglega allar gengið upp væri kannski erfiðast að fara þriðju leiðina með farsælum hætti vegna þeirrar stjórnmálahefðar sem ríkir á Íslandi, þeirrar harkalegu átakahefðar sem er í íslenskum stjórnmálum og eitraða andrúmslofts sem að mörgu leyti ríkir og hefur ríkt síðustu tíu árin í vaxandi mæli í íslenskum stjórnmálum. Í Danmörku er löng og ágæt hefð fyrir slíkri málafylgju í mjög mörgum málaflokkum, enda hefð fyrir nokkuð farsælum minnihlutastjórnum þar til áratuga eins og á hinum Norðurlöndunum.

Í fyrstu leiðinni segir svo, með leyfi forseta:

„Óbreytt fyrirkomulag en ráðuneytisstjóri hætti störfum um leið og ráðherra. Þessari leið svipar til fyrirkomulags á flestum stjórnsýslustigum í Bandaríkjunum, þar sem æðstu stjórnendur eru pólitískt ráðnir en fara úr embætti um leið og ráðherra.“

Það er lykilatriði að þeir fara úr embætti um leið og ráðherrann. Gallinn við þetta segir hér er að mikilvæg þekking og reynsla geta farið forgörðum við ráðherraskipti en meginkostur er pólitísk skilvirkni. Að sjálfsögðu eru einhverjir gallar við allar leiðir en það sem ég held að skyggi aðeins á leið tvö þar sem pólitískur ráðuneytisstjóri yrði skipaður við hliðina á faglegum er að það gæti örugglega valdið togstreitu og árekstrum og erfiðleikum í framkvæmd en sú leið kemur líka til greina. Ég er hrifinn af fyrstu leiðinni, hún er hrein og bein, þar koma menn til verka í ráðuneytum sínum með sína menn og fara með þá með sér þegar nýr maður tekur við. Ég tala nú ekki um þegar valdaskipti verða í landinu og ný ríkisstjórn tekur við þá er langeðlilegast að pólitískir trúnaðarmenn fyrrverandi ráðherra víki og fari með þeim pólitísku lagsmönnum sínum sem þeir komu með. Það gefst langbest. Það er fráleitt eins og er hér að menn sitji áfram eftir slík valdaskipti af því að það er svo erfitt að skilja þarna á milli. Starfið í ráðuneytunum hlýtur að vera þess eðlis að þar sé mjög pólitísk málafylgja og málarekstur dag frá degi og þar þurfa að vera pólitískir trúnaðarmenn hvers ráðherra fyrir sig til að hlutirnir gangi eðlilega eftir. En málið er gott og hægt að hafa um það langt mál og mikið.