132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[15:38]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi tillaga nær ekki til þeirra mála. Ég nefndi þessi mál áðan og það er sjálfsagt að svara hv. þingmanni fyrst hann spyr. Nei, nei, að sjálfsögðu eru dómar Hæstaréttar ekki marklausir. En sú aðferð sem viðhöfð er við skipun hæstaréttardómara og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur að því er virðist vaðið yfir réttinn á undanförnum árum við skipun dómaranna og skipað menn úr sínum innsta hring og nánasta frændgarði sem dómara í Hæstarétti gerir það að verkum að sá grunur hlýtur að læðast að manni og þær efasemdir að um sé að ræða pólitískar skipanir en ekki faglegar. Það var það sem ég átti við. Vinnubrögðin sem viðhöfð eru við að skipa hæstaréttardómara eru með þeim hætti að þau grafa undan tiltrú almennings á réttinum. Með réttu eða röngu gera vinnubrögðin ein og sér það, ég tala nú ekki um hvernig vinnubrögð voru ástunduð af framkvæmdarvaldinu á síðustu missirum og þeim sem er nýhættur störfum sem formaður Sjálfstæðisflokksins og farinn upp í Seðlabanka til að ráðskast þar með málin. Það var það sem ég átti við. Vinnubrögðin eru einfaldlega óviðunandi. Og rétt eins og vinnubrögðin sem lagt er til í þessari tillögu að tekin verði upp við skipun æðstu embættismanna og ráðuneytisstjóra hjá Stjórnarráðinu þarf að breyta hinum reglunum líka til að eyða efasemdum og grunsemdum um að vaðið sé yfir æðstu stofnanir samfélagsins á pólitískum forsendum á kostnað þeirra faglegu.