132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[15:47]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem félagar mínir, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, hafa sagt um þingsályktunartillögu um skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins. Ég vil þó leggja nokkur orð í belg vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það ráðningar- og skipunarkerfi sem við höfum búið við undanfarin ár og áratugi sé ekki bara gamaldags, enda liggja rætur þess allt aftur til heimastjórnaráranna, heldur vinni það líka gegn faglegum og lýðræðislegum stjórnarháttum í samfélaginu.

Á erlendum málum er til orðið „meritocracy“ sem þýðir það að við búum í samfélagi þar sem hver fái að njóta verðleika sinna. Sú tillaga sem hér um ræðir snýst um það að fólk njóti raunverulegra verðleika sinna í samfélaginu og við störf í Stjórnarráðinu. Ég hygg að sú hugsun að njóta verðleika sinna, hafi verið og sé vanmetin víða í hinu opinbera kerfi á Íslandi. Ég er ekki viss um að málum sé þannig háttað í einkarekstri og í einkafyrirtækjum. Ég held reyndar að þar séu menn komnir langt á undan hinu opinbera, t.d. við mannaráðningar og aðra stjórnun, mannlaus stjórnun heitir það víst nú á dögum. Ég tel að hið opinbera kerfi þurfi víða að fara að taka sig á og taka til í þessum efnum.

Þetta snýst líka um sanngirni og jafnræði einstaklinga á vinnumarkaði. Hér á Alþingi ræðum við oft um stöðu kynjanna á vinnumarkaði og vissulega tekur umfjöllun um þetta mál á þeim þætti. Hún kemur líka inn á þá staðreynd að við uppskerum eins og til hefur verið sáð í hinni miklu menntasókn sem verið hefur á Íslandi alla 20. öldina, og ekki síst menntasókn kvenna. Málið snýst ekki aðeins um það að starfslýsing sé skýr og kröfur skýrar þegar starf er auglýst laust til umsóknar — fyrir utan þá einföldu forsendu að störf séu auglýst, að það sé reglan en ekki undantekningin — heldur líka um það að ráðningarferlið sé gegnsætt og öllum kunnugt og að ráðningin sé rökstudd, hvers vegna og hvernig tiltekinn einstaklingur er ráðinn til starfa.

Ég held að við höfum öll sem hér sitjum einhvern tímann í okkar starfi fengið símtal frá fólki sem spyr: Heldurðu að það þýði nokkuð að sækja um þetta? Ég hef fengið nokkur slík símtöl í tímans rás þar sem fólk mér kunnugt, og jafnvel fólk sem er mér ekki kunnugt, hringir og spyr um tiltekna stöðu sem hefur verið auglýst í ríkisstofnun eða einhvers staðar annars staða. Þetta fólk spyr: Er vitað hver á að fá stöðuna? Fólk hringir vegna þess að það vill ekki leggja nafn sitt að veði í ferli sem er ósanngjarnt, ógegnsætt og þegar búið er að ákveða fyrir löngu hver fær stöðuna. Það fengist auðvitað aldrei viðurkennt neins staðar, en fólk spyr ekki að ástæðulausu. Það spyr vegna reynslu sinnar af því ráðningarkerfi sem við höfum því miður búið við allt of lengi hér á Íslandi. Þess vegna hringir það og spyr: Heldurðu að það þýði nokkuð að sækja um þetta? Það er dapurlegur vitnisburður um það hvernig staðið hefur verið að mannaráðningum víða í hinu opinbera kerfi á undanförnum árum og áratugum.

Það á aldrei að leika neinn vafi á því að hæfasti einstaklingurinn sé ráðinn í tiltekna stöðu. Það á heldur aldrei að leika neinn vafi á því að staðan sé auglýst vegna þess að til standi að fara í gegnum skipulegt og gegnsætt ráðningarferli. Annars er betra að auglýsa ekki. Auglýsingar til málamynda gera engum greiða og eru stjórnkerfinu til vansa. Við höfum séð í kringum okkur, t.d. í stærsta sveitarfélagi landsins, að gagngerar breytingar á stjórnkerfi hafa leitt til þess að fólk hefur flykkst þangað til starfa. Ekki síst konur, frú forseti, vegna þess að þær hafa þá vitað að umsóknir þeirra yrðu metnar hlutlægt og að þær yrðu metnar að verðleikum. Það er þannig kerfi sem við þurfum að koma á fót í Stjórnarráði Íslands. Það kerfi á ekki bara að vera samtímanum samboðið, eða nútímalegu stjórnkerfi, heldur þarf það einnig að tryggja þá lýðræðislegu fúnksjón sem slíkt kerfi á að hafa.