132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[15:53]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afar merkilegu máli, máli sem löngu er tímabært að ræða á Alþingi. Ég sakna þess að hv. þingmenn úr fleiri flokkum en Samfylkingunni taki ekki þátt í umræðunni um þetta mikilvæga og athyglisverða mál.

Hér er verið að reyna að skilja að einhverju leyti á milli hinnar pólitísku stefnu sem fylgir nýjum ríkisstjórnum og nýjum áherslum og festu embættismannakerfisins. Stjórnmálamenn eru ráðnir til fjögurra ára. Þeir hafa ákveðin viðhorf og stefnu, þeir vilja sjá hverju þeir geta hrint í framkvæmd. Þeir þurfa að sjálfsögðu aðstoðarmenn til þess að koma stefnu sinni áfram. Á hinn bóginn er geysilega mikilvægt að í stjórnkerfinu ríki festa, þannig að tiltrú almennings á því sé eins mikil og nokkur er kostur.

Sú tillaga sem hér er sett fram er einmitt tilraun til þess að skilja á milli tveggja þátta: annars vegar er um að ræða mikilvægi þess að hafa festu og skýrar reglur en hins vegar er um að ræða hinn pólitíska þátt þess að reka stjórnkerfið og Stjórnarráðið. Annars vegar er um að ræða embættismannakerfið, sem menn hugsa til lengri tíma og er kjölfestan í stjórnkerfinu, og hins vegar er um að ræða möguleika tiltekinna stjórnmálamanna á því að kalla til verka, þá tímabundið, einstaklinga sem þeir vilja vinna með þann tíma sem þeir hafa hugsanlega umboð til.

Því er hér stórmerkilegt mál á ferð sem á að fá mikla athygli því, eins og rakið hefur verið í mörgum ræðum, hafa skilin þarna á milli oft verið afar óljós. Það hefur jafnvel verið forsenda framgangs í stjórnkerfinu eða Stjórnarráðinu að skrá sig í einhvern stjórnmálaflokk, vinna sig upp til áhrifa og eiga þá á einhverjum tímapunkti nánast rétt á því að þiggja starf í stjórnarráðinu. Þetta gengur ekki upp ef við viljum hafa öflugt og gegnsætt stjórnkerfi sem við getum treyst. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi umræða fari fram, annars vegar um hinn pólitíska þátt kerfisins, sem er til staðar, og menn skulu ekki gera lítið úr því, og hins vegar embættismannanna sem ráðnir eru til lengri tíma. Mér finnst grunnurinn í þeirri merkilegu tillögu sem hér er lögð fram vera sá að stjórnmálamenn geti, eða ráðherrar, ráðið fólk tímabundið inn í ráðuneytin á sínum forsendum og ekkert sé óeðlilegt við það. En einnig þarf að ráða embættismenn til lengri tíma sem sjá þá um að tryggja festu og gegnsæi og allt sem þarf að vera til staðar.

Mér finnst ágætt að rifja upp nú af því að langt er um liðið, og af því að þessi umræða hefur oft og tíðum verið á allt að því athyglisverðum villigötum ef ég má orða það svo. Fyrir nokkrum árum var ónefndur ráðherra gagnrýndur mjög harðlega fyrir það að hann hafði ráðið mág sinn sem aðstoðarmann. Hér var um að ræða pólitískan aðstoðarmann og að sjálfsögðu er það fullkomlega eðlilegt að ráðherra á hverjum tíma ráði mann eða konu sem hann treystir til verka. Hér er um að ræða algerlega pólitíska ráðningu á ábyrgð þess sem það gerir. Menn mega heldur ekki rugla þessu saman við það þegar um er að ræða að ráða embættismenn til þess að sinna ákveðnum verkum. Í raun og veru til þess að vera sú kjölfesta í stjórnkerfinu sem við viljum hafa og við viljum geta treyst.

Þess vegna finnst mér þessi umræða afar merkileg og ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að eiga frumkvæði að því að leggja hana fram. Það er mikilvægt að þessi mál verði rædd og ég vonast til þess þegar svona hugmyndir koma fram, hugmyndir sem að mörgu leyti eru vatnaskil hvað varðar það hvernig kerfið hefur verið rekið í áratugi. Hér er verið að setja inn nýja hugsun, nýja hugsun í íslensk stjórnmál, þó að sjálfsögðu sé kannski fátt nýtt undir sólinni. Í Bandaríkjunum t.d., eins og hér er rakið, fara hinir pólitískt ráðnu embættismenn eða starfsmenn út um leið og viðkomandi ráðherra fer. Það hefur þann kost að sá sem tekur við hefur þá nánast autt borð og getur tekið við og ráðið það fólk sem hann telur henta sinni stefnu. En gallinn við þá reglu er að sjálfsögðu sá að það tapast ákveðin þekking og festa og það er stundum um það talað að stjórnkerfið í Bandaríkjunum sé allt að því óstarfhæft fyrstu þrjá til sex mánuðina eftir að stjórnarskipti eiga sér stað.

Það er svo sem alveg sama hvaða reglu við setjum okkur, þær hafa sjálfsagt allar kosti og galla. En mér finnst geysilega mikilvægt að skilið verði á milli, eins og kostur er, pólitískra ráðninga og ráðninga sem ætlað er að vera partur af stjórnkerfinu, ráðninga sem við viljum geta treyst. Að skilið verði á milli pólitískra ráðninga og ráðninga sem er ætlað að vera partur af stjórnkerfi sem við viljum geta treyst af því það er gegnsætt og heiðarlegt og af því að þar er unnið á eins faglegum forsendum og nokkur er kostur.

Að þessum orðum sögðum vil ég enn og aftur ítreka ánægju mína með að þessi tillaga er komin fram.