132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[16:46]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég vildi nýta mér andsvarsréttinn, kannski misnota andsvarsréttinn, til að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni varðandi það að efnahags- og viðskiptanefnd hafi í raun lokið umfjöllun um þetta mál. Ég held að það sé nauðsynlegt að efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál fljótt fyrir og sé í raun ekki ástæðu til annars en að það verði klárað fljótt í þinginu.

Eins og hér kom fram í máli hv. þingmanns, hann gerði góða grein fyrir þessu máli, er um gífurlega réttarbót að ræða. Ég veit að dómarar hafa beðið eftir því að geta hreinlega dæmt eftir sæmilega réttlátum lögum. Hér hafa komið upp mörg grátleg dæmi, eins og hv. þingmaður fór yfir, að heiðarlegt fólk hafi verið dæmt í miklar fésektir og í fangelsi fyrir hluti sem eru til komnir vegna ófyrirsjáanlegra atvika. Viðkomandi aðilar hafa alls ekki getað séð við því með neinum hætti. Þar eru satt að segja grátleg dæmi um að fólk hafi mátt sæta þungum refsingum fyrir engar sakir.