132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipulögð leit að krabbameini í ristli.

13. mál
[17:06]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er gott mál sem við erum að ræða hér og við erum ekki að ræða það í fyrsta sinn eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Suðurkjördæmis, Drífu Hjartardóttur. Í máli hennar kom fram að það var fyrst flutt af fyrrverandi þingmanni, Árna Ragnari Árnasyni, og ég var strax þá meðflutningsmaður á málinu. Mér fannst bæði að hann væri kjarkmikill að flytja málið og mér fannst að rök hans fyrir því að hefja ætti skipulega leit að krabbameini í ristli rétt og féllst á þau og ég er enn þá sannfærð um það.

Það er mjög mikilvægt líka að líta til þess hve mikilvægt er að vera með fræðslu um áhættuþætti, eins og fram kemur í greinargerðinni, hvetja til heilbrigðra lífshátta og auk þess sé möguleiki á að skipuleg krabbameinsleit fari fram. Þetta höfum við konurnar þekkt þar sem við höfum búið við það í nokkra áratugi að fram hefur farið skipuleg krabbameinsleit að krabbameini í brjóstum og legi. Ég held að ekki nokkur kona mundi vilja að hætt yrði við þá forvörn sem sú krabbameinsleit er. Þetta hefur verið mikilvægur þáttur í forvarnastarfi fyrir konur. Nú er vitað að krabbamein í ristli er líka það algengt að full ástæða er til að vera með slíkt forvarnastarf sem skipuleg leit er og koma þessari þingsályktun í gegnum þingið.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir benti á að deilt væri um réttmæti slíkrar skoðunar eða skimunar. Þau sjónarmið finnast reyndar að ekki sé nægilegt gagn að almennri krabbameinsleit og það eigi líka við um leit að krabbameini í brjóstum og legi, sem við höfum búið við í þann tíma sem ég benti á. En ég býst við að allir þeir sem hafa notið þess að það hafi verið uppgötvað nægilega snemma einmitt vegna þessa forvarnastarfs mundu hafna slíkum sjónarmiðum.

Það sem vekur með mér áhyggjur er hversu oft við höfum fjallað um þetta þingmál. Það er tiltölulega einfalt og skýrt. Þeir starfshópar sem hafa verið að skoða málið og flutningsmaður vísaði til komust að sameiginlegri niðurstöðu, mæla eindregið með að farið verði í þessa skipulögðu leit. Samt sem áður hefur þetta ekki náðst í gegn. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvað valdi því. Er talið að ekki sé til nóg starfsfólk eða sérfræðingar til að sinna þessu máli ef farið yrði í þá skipulögðu leit sem hér er lögð til á tilteknum aldurshópum? Er það kostnaðurinn sem fælir frá? Eru til nýjustu tölur um kostnað við að fara í þessa skipulögðu leit? Er þetta eitthvað sem væri hægt að taka í áföngum? Er það í raun og veru kostnaðurinn við leitina sem gerir það að verkum að tillagan hefur ekki fengist afgreidd? Liggur það þá fyrir að til séu einhverjar aðrar upplýsingar en þær sem greint er frá í greinargerðinni þar sem segir að starfshópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé kostnaðarlega hagkvæmt að fara í skipulagða leit?

Það er einnig annað sem ég vil nefna, virðulegi forseti. Þegar við ræddum þetta mál á þeim tíma sem fyrrverandi þingmaður, Árni Ragnar Árnason, flutti málið kom einmitt fram í umræðu að svipað og með gigtarættir virðist vera meiri áhætta í sumum ættum frekar en öðrum. Nokkrar stórar gigtarættir eru þekktar hér á landi og fólk er þá oft meðvitaðra um að kvillar sem upp koma geti kannski hugsanlega verið af slíkum toga. Þannig var það líka upplýst í umræðu að það væri þekkt að svona krabbamein gæti verið ættgengt og að full ástæða væri til að vera á varðbergi.

Virðulegi forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessa tillögu. Mér finnst það áhyggjuefni hversu oft hún hefur verið flutt og ég ætla að leyfa mér að vonast eftir því að hún fáist a.m.k. skoðuð í nefnd og að hægt verði að kalla til einstaklinga sem geti svarað því hver sé raunkostnaður af því að fara í skipulagða leit að krabbameini í ristli miðað við það sem ávinnst og fá að vita hvort einhverjir aðrir annmarkar eru en hugsanlega kostnaðurinn sem veldur því að tillagan hefur ekki fengist samþykkt.