132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipulögð leit að krabbameini í ristli.

13. mál
[17:12]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari tillögu til þingsályktunar um skipulagða leit að krabbameini í ristli sem er flutt af hv. þingmönnum Drífu Hjartardóttur, Margréti Frímannsdóttur, Ögmundi Jónassyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Halldóri Blöndal, Rannveigu Guðmundsdóttur og Siv Friðleifsdóttur. Með henni fylgir mjög góð og ítarleg greinargerð og fylgiskjöl. Eins og komið hefur fram hefur tillagan áður verið flutt en ekki hlotið samþykki. Hvers vegna veit ég ekki en slæmt er ef áætlaður kostnaður við rannsóknina veldur því að tillagan hefur ekki farið hér áður í gegn.

Eins og fram hefur komið er krabbamein í ristli annað algengasta krabbameinið á Íslandi og jafnframt annað í röð þeirra krabbameina sem getur dregið fólk til dauða. Því nauðsynlegt að taka upp forvarnaaðgerðir, t.d. skimun, eins og bent er á í tillögunni. Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að með skipulegri skimun fyrir ristilkrabba megi fækka dauðsföllum um allt að 33%. Hér er greinilega um árangursríka aðferð að ræða. Auk þess að koma í veg fyrir þær líkamlegu og andlegu þjáningar sem þessi sjúkdómur veldur hefur verið sýnt fram á fjárhagslega hagkvæmni sem fylgir forvarnastarfsemi.

Jafnframt hefur komið fram að aukning er á sjúkdómstilfellum og þjóðin er að verða eldri, hún er að verða langlífari. Ég tel því nauðsynlegt að hefja undirbúning að skipulagðri ristilkrabbameinsleit eins og kemur hér skýrt fram í þessari ályktun.